Austurríkismenn hafa ákveðið að loka 24 landamærastöðvum til Ungverjalands og Slóvakíu eftir að faraldur gin- og klaufaveiki hefur gert vart við sig í löndunum.
Lýst var yfir neyðarástandi i Slóvakíu eftir að vart varð við sjúkdóminn á þremur býlum. Sjúkdómurinn kom hins vegar upp í Ungverjalandi þar sem faraldurinn er skæður. Ákváðu yfirvöld að kalla hermenn að landamærunum til þess að sjá til þess að sóttvörnum yrði sinnt af kostgæfni.
Mannfólki stafar ekki hætta af sjúkdómnum en hann smitast auðveldlega á milli búfénaðar. Yfirvöld í Austurríki hafa aukið mannafla í lögregluliði sínu við landamærin sem alla jafna eru opin.