Listakonan sem málaði málverk af Donald Trump Bandaríkjaforseta, sem hann sagði vera „skrumskælingu“, sagði ummæli forsetans hafa skaðað feril hennar.
Málverkið var til sýnis í ríkisþinghúsi Colorado áður en verkið var fjarlægt í mars í kjölfar kvartana Trumps.
„Engum líkar við slæma mynd af sér, en sú sem er í Colorado af mér, í ríkisþinghúsinu, sett upp af ríkisstjóranum, ásamt öllum öðrum forsetum, er skrumskæling,“ sagði Trump í færslu á samfélagsmiðli sínum Truth Social.
„Listamaðurinn gerði einnig málverk af forseta Obama, og hann lítur frábærlega út, en myndin af mér er sannarlega sú versta.“
Trump sagði að listakonan, Sarah Boardman, „hlyti að hafa misst hæfileikann eftir því sem hún eltist“.
Málverkið var því tekið niður eftir að hafa verið til sýnis í þinghúsinu frá árinu 2019 og sett í geymslu.
Í yfirlýsingu á vefsíðu sinni sagðist Boardman hafa vandað til verka og ekki gert skrumskælingu af forsetanum. Þá sagðist hún ekki hafa málað verkið eftir pólitískri hlutdrægni og hvorki gefið í skyn eða gert skopmynd af Trump.
„Trump forseta er frjálst að gera athugasemdir, eins og okkur öllum, en ásakanir um að ég hafi vísvitandi „afskræmt“ verkið, og að ég hafi misst hæfileikann eftir því sem ég eltist eru nú að hafa bein neikvæð áhrif á feril minn sem spannar yfir 41 ár.“
Boardman bætti við að verkið hefði verið til sýnis í þinghúsinu í sex ár og að hún hefði „fengið yfirgnæfandi jákvæða dóma“.
Eftir ummæli Trumps hafi það hins vegar breyst til hins verra.
Auk þess að hafa málað verk af Trump og Obama þá málaði Boardman verk af George W. Bush.