David Lammy, utanríkisráðaherra Breta, sagði það „óásættanlegt“ að Ísrael hefði lagt hald á tvo breska þingmenn og meinað þeim inngöngu inn í landið.
Yuan Yang og Abtisam Mohamed eru þingmenn Verkamannaflokksins og voru á leið í ferð um Vesturbakkann. Þær flugu frá Lundúnum til Ísrael, ásamt tveimur aðstoðarmönnum.
Þar var hópurinn yfirheyrður og sakaður um að ætla að afla upplýsinga um öryggissveitir Ísraels. Þeim var því meinaður aðgangur inn í landið og vísað til baka.
„Það er óásættanlegt og mikið áhyggjuefni að tveir breskir þingmenn í sendinefnd þingsins til Ísrael hafi verið handteknir og meinað inngöngu af ísraelskum yfirvöldum,“ sagði í yfirlýsingu Lammy.
Þá sagði að utanríkisráðherrann hefði komið þeim skilaboðum til utanríkisráðherra Ísraels að „þetta sé ekki ásættanleg framkoma við breska þingmenn“. Þá hefur Wang og Mohamed verið boðinn stuðningur.
„Áherslur bresku ríkisstjórnarinnar eru að koma á vopnahléi og friðarviðræðum til þess að stöðva blóðsúthellingarnar, frelsa gísla og enda stríðið á Gasa.“
Í yfirlýsingu ísraelska sendiráðsins í Lundúnum sagði að ríkið myndi ekki hleypa einstaklingum inn í landið sem beittu sér gegn ísraelska ríkinu og borgurum þess.
Þá sagði að þingkonurnar hefðu „ranglega ásakað Ísraela“ og „tekið virkan þátt í að stuðla að refsiaðgerðum gegn ísraelskum ráðherrum“.
Í yfirlýsingunni sagði að Wang og Mohamed hefðu stutt herferðir um að sniðganga Ísrael á tímum þar sem „Ísrael er í stríði og þarf að þola árásir á sjö vígstöðum“.
Sendiráðið sagði að hópnum hefði verið boðin hótelgisting, sem hann afþakkaði, og greitt fyrir flugið aftur til Bretlands.