Aðildarríki Atlantshafsbandalagsins (NATO) þurfa að stórefla hernaðarstuðning sinn við Úkraínu og auka um leið gæði þeirrar þjálfunar sem verðandi hermenn Úkraínuhers fá áður en þeir eru sendir inn á vígvöllinn. Ekki sé nóg að þjálfa einstaklinga til almennrar herþjónustu í einungis sex vikur, líkt og nú er gert. Slík þjálfun skilar ekki nægjanlegum árangri í vopnuðum átökum.
Þetta segir Simon Woodiwiss, fv. herstjórnandi í Bretlandsher og öryggisráðgjafi í Úkraínu. Fái Úkraínumenn nauðsynlegan stuðning frá Vesturlöndum er, að hans mati, útilokað að Rússar vinni stríðið. Rússlandsher sé einungis skugginn af því sem hann áður var.
„Úkraínuher hefur sýnt heiminum færni sína við að nýta alla þá hluti sem hann kemst yfir. Og ég veit ekki betur en árásardrónar þeirra hafi grandað fleiri skotmörkum en nokkurt annað vopnakerfi í þessu stríði. En drónar leysa ekki fótgönguliða af hólmi. Það er ekki hægt að ná landsvæði án fótgönguliða. Án þeirra er ekki hægt að endurheimta eða leggja undir sig land,“ segir Woodiwiss í samtali við Times Radio og bætir við að nú, þegar rúm þrjú ár eru liðin frá allsherjarinnrás Rússlands inn í Úkraínu, sé þjálfun almennra hermanna ófullnægjandi.
Nánari umfjöllun má finna í Morgunblaðinu í gær, laugardag. Einnig má nálgast hana án endurgjalds í Mogganum, nýju appi Morgunblaðsins og mbl.is.