Kínverska sendiráðið í Bandaríkjunum hefur deilt ræðu Ronald Reagans, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, um tolla og fríverslun á samfélagsmiðlum í kjölfar stigmögnunar í tollastríði ríkjanna tveggja.
Donald Trump tilkynnti í síðustu viku að hann myndi leggja 34 prósent innflutningstolla á allar vörur frá Kína. Kína svaraði í sömu mynt og í dag hótaði Trump að leggja 50% viðbótartoll á allar innfluttar vörur frá Kína.
Kínverska sendiráðið deildi því á samfélagsmiðlum broti úr ávarpi Reagans til Bandaríkjamanna árið 1987 sem snerist um frjáls viðskipti. Ronald Reagan var repúblikani rétt eins og Trump.
„Ronald Reagan gegn #tollum: Ræða frá 1987 öðlast nýtt mikilvægi árið 2025,“ skrifaði sendiráðið.
„Sjáðu til, í upphafi, þegar einhver segir: „Setjum tolla á erlendar innflutningsvörur,“ lítur það út fyrir að þeir séu að gera föðurlandinu greiða með því að vernda bandarískar vörur og störf. Og stundum virkar það um stund – en aðeins í skamman tíma,“ sagði Reagan.
Í ávarpinu hélt hann því fram að það sem myndi gerast væri í fyrsta lagi að innlendar atvinnugreinar færu að reiða sig á vernd ríkisins í formi hárra tolla. Þær hætta að keppa og hætta að ráðast í nýsköpun sem þarf til að ná árangri á heimsmörkuðum.
„Og á meðan allt þetta er að gerast, kemur eitthvað enn verra fyrir. Háir tollar leiða óhjákvæmilega til hefndaraðgerða erlendra ríkja og valda harðskeyttum viðskiptastríðum. Afleiðingin er fleiri og fleiri tollar, hærri og hærri viðskiptahindranir og minni og minni samkeppni,“ sagði hann.
Fólk á samfélagsmiðlum hefur verið að deila þessu þar sem þeim þykir ekki síst skondið að kínverskir kommúnistar séu að minna Bandaríkjamenn á gildi Reagans.
„Þannig að fljótlega, vegna verðs sem er gert óeðlilega hátt út af tollum sem niðurgreiða óskilvirkni og lélega stjórnun, hættir fólk að kaupa. Þá gerist það versta: Markaðir dragast saman og hrynja, fyrirtæki og atvinnugreinar loka og milljónir manna missa vinnuna,“ sagði Reagan.