Krefjast rannsóknar á morðunum

Myndskeið sem birtist frá árásinni sýnir að ökutækin voru með …
Myndskeið sem birtist frá árásinni sýnir að ökutækin voru með bæði aðalljós og blikkljós kveikt þegar árás Ísraelshers hófst. AFP

Þýska­land hef­ur kallað eft­ir bráðri rann­sókn á drápi fimmtán neyðar­starfs­manna í suður­hluta Gasa.

Greint var frá því í gær að ísra­elski her­inn hefði viður­kennt að hafa borið ábyrgð á dauða starfs­mann­anna.

Voru óvopnaðir þegar her­menn hófu skot­hríð

Upp­haf­lega hélt her­inn því fram að skot­hríð hefði verið haf­in vegna þess að bíla­lest neyðar­starfs­mann­anna – sem sam­an­stóð af sjúkra­bíl­um palestínska Rauða hálf­mán­ans, bif­reið frá Sam­einuðu þjóðunum og slökkviliðsbíl al­manna­varna á Gasa – hefði nálg­ast „grun­sam­lega“ í myrkri, án aðalljósa eða blik­k­ljósa.

Mynd­skeið sem síðar birt­ist frá árás­inni sýn­ir hins veg­ar að öku­tæk­in voru með bæði aðalljós og blik­k­ljós kveikt.

Þá hef­ur Ísra­els­her haldið því fram að að minnsta kosti sex af sjúkra­flutn­inga­mönn­un­um hafi tengst Ham­as, en hef­ur hingað til ekki lagt fram nein­ar sann­an­ir því til stuðnings.

Her­inn hef­ur jafn­framt viður­kennt að starfs­menn­irn­ir hafi verið óvopnaðir þegar her­menn hófu skot­hríð.

Rann­sókn bráðnauðsyn­leg

Christian Wagner, talsmaður þýska ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins, seg­ir árás­ina vekja upp al­var­leg­ar spurn­ing­ar um aðgerðir ísra­elska hers­ins.

„Rann­sókn og ábyrgðar­taka gerenda er bráðnauðsyn­leg,“ sagði Wagner við fjöl­miðla í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert