Þýskaland hefur kallað eftir bráðri rannsókn á drápi fimmtán neyðarstarfsmanna í suðurhluta Gasa.
Greint var frá því í gær að ísraelski herinn hefði viðurkennt að hafa borið ábyrgð á dauða starfsmannanna.
Upphaflega hélt herinn því fram að skothríð hefði verið hafin vegna þess að bílalest neyðarstarfsmannanna – sem samanstóð af sjúkrabílum palestínska Rauða hálfmánans, bifreið frá Sameinuðu þjóðunum og slökkviliðsbíl almannavarna á Gasa – hefði nálgast „grunsamlega“ í myrkri, án aðalljósa eða blikkljósa.
Myndskeið sem síðar birtist frá árásinni sýnir hins vegar að ökutækin voru með bæði aðalljós og blikkljós kveikt.
Þá hefur Ísraelsher haldið því fram að að minnsta kosti sex af sjúkraflutningamönnunum hafi tengst Hamas, en hefur hingað til ekki lagt fram neinar sannanir því til stuðnings.
Herinn hefur jafnframt viðurkennt að starfsmennirnir hafi verið óvopnaðir þegar hermenn hófu skothríð.
Christian Wagner, talsmaður þýska utanríkisráðuneytisins, segir árásina vekja upp alvarlegar spurningar um aðgerðir ísraelska hersins.
„Rannsókn og ábyrgðartaka gerenda er bráðnauðsynleg,“ sagði Wagner við fjölmiðla í dag.