Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að stjórnvöld í Washington eigi „mjög stóran fund“ áætlaðan með Írönum á laugardag.
„Við eigum í beinum samskiptum við Íran,“ sagði Trump einnig á blaðamannafundi með Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, í kvöld.
Leiðtogarnir ræddu þar helst tollastríð Trumps og stríð Ísraels á Gasa.
Þá voru Íranir og fylgitungl þeirra einnig til umræðu þar sem Bandaríkin vilja koma í veg fyrir að Íranir afli sér kjarnorkuvopna.
Í því samhengi minntist Trump á að það yrði „rosa frábært“ ef samningur um kjarnavopn næðist á téðum fundi en tók einnig fram að Íran yrði „í vandræðum“ ef enginn samningur næðist.
Í gær sagði íranskur erindreki að stjórnvöld myndu ekki verða við ósk Trumps um beinar viðræður á milli hans og Ayatollah Ali Khamenei, æðsta klerks í klerkaveldi Írans, um kjarnorkuáætlanir landsins.
Tilefni blaðamannafundarins var heimsókn Netanjahús í Hvíta húsið. Var hún skipulögð um leið og Donald Trump lagði sérsniðna tolla á um 60 lönd í síðustu viku.