Segir dóminn nornaveiðar og hefur áfrýjað

00:00
00:00

Mar­ine Le Pen, leiðtogi rót­tæka hægri­flokks­ins Þjóðfylk­ing­ar­inn­ar í Frakklandi, seg­ir dóm franskra dóm­stóla, sem bann­ar henni að bjóða sig fram til for­seta næstu fimm árin, vera norna­veiðar.

Le Pen ávarpaði stuðnings­menn sína við Ef­felt­urn­inn í Par­ís í gær og sagðist ætla að berj­ast gegn dómsniður­stöðunni, sem hún hef­ur áfrýjað.

Breska rík­is­út­varpið grein­ir frá. 

Marine Le Pen ávarpaði stuðningsmenn sína í París í gær.
Mar­ine Le Pen ávarpaði stuðnings­menn sína í Par­ís í gær. AFP

Ekki að biðja um að vera yfir lög­in haf­in

Hún sagði dóm­inn vera póli­tíska ákvörðun og tók fram að hún væri ekki að biðja um að vera yfir lög­in haf­in – en að hún ætti ekki held­ur að vera und­ir þeim.

Le Pen var sak­felld fyr­ir fjár­svik af dóm­stóli í Par­ís fyr­ir viku og hlaut fjög­urra ára fang­els­is­dóm. Auk þess var henni bannað að bjóða sig fram til op­in­bers embætt­is næstu fimm árin. Hún hafði ætlað að gefa kost á sér í for­seta­kosn­ing­un­um árið 2027, sem hefði verið henn­ar fjórða fram­boð.

Le Pen og 24 aðrir starfs­menn Þjóðfylk­ing­ar­inn­ar voru ákærðir fyr­ir að hafa mis­notað fjár­muni úr sjóðum Evr­ópu­sam­bands­ins. Féð átti að standa und­ir launa­kostnaði aðstoðarmanna þing­flokks­ins en var í staðinn notað til að greiða al­menn­um starfs­mönn­um flokks­ins á ár­un­um 2004 til 2016.

Tólf aðstoðar­menn voru einnig sak­felld­ir fyr­ir að hafa hylmt yfir glæp­inn. Dóm­stóll­inn mat að ráðabruggið hefði kostað um 2,9 millj­ón­ir evra, sem jafn­gild­ir um 413 millj­ón­um króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert