Marine Le Pen, leiðtogi róttæka hægriflokksins Þjóðfylkingarinnar í Frakklandi, segir dóm franskra dómstóla, sem bannar henni að bjóða sig fram til forseta næstu fimm árin, vera nornaveiðar.
Le Pen ávarpaði stuðningsmenn sína við Effelturninn í París í gær og sagðist ætla að berjast gegn dómsniðurstöðunni, sem hún hefur áfrýjað.
Breska ríkisútvarpið greinir frá.
Hún sagði dóminn vera pólitíska ákvörðun og tók fram að hún væri ekki að biðja um að vera yfir lögin hafin – en að hún ætti ekki heldur að vera undir þeim.
Le Pen var sakfelld fyrir fjársvik af dómstóli í París fyrir viku og hlaut fjögurra ára fangelsisdóm. Auk þess var henni bannað að bjóða sig fram til opinbers embættis næstu fimm árin. Hún hafði ætlað að gefa kost á sér í forsetakosningunum árið 2027, sem hefði verið hennar fjórða framboð.
Le Pen og 24 aðrir starfsmenn Þjóðfylkingarinnar voru ákærðir fyrir að hafa misnotað fjármuni úr sjóðum Evrópusambandsins. Féð átti að standa undir launakostnaði aðstoðarmanna þingflokksins en var í staðinn notað til að greiða almennum starfsmönnum flokksins á árunum 2004 til 2016.
Tólf aðstoðarmenn voru einnig sakfelldir fyrir að hafa hylmt yfir glæpinn. Dómstóllinn mat að ráðabruggið hefði kostað um 2,9 milljónir evra, sem jafngildir um 413 milljónum króna.