Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur varið umfangsmiklar tollahækkanir sínar og líkt þeim við lyfjainntöku.
Trump sat fyrir svörum í flugvél forsetaembættisins, Air Force One, í gærkvöldi.
Greint hefur verið frá að eftir tollahækkanir Trumps hafi hlutabréfamarkaðir hríðfallið. Sagði Trump blaðamönnum í gærkvöldi að lönd, bæði innan Asíu og Evrópu, væru að reyna að gera samning við Bandaríkin.
Greinir breska ríkisútvarpið t.a.m. frá því að leiðtogi Víetnams hafi óskað eftir 45 daga fresti á þann toll sem verður settur á innfluttar vörur frá landinu, en hann nemur 46%.
Aðspurður um sársaukamörk bandarískra neytenda, sem óttast nú verðhækkanir og vaxandi markaðslægð, sagðist Trump ekki vilja sjá neitt fara niður á við.
„En „stundum þarftu að taka lyf til að laga eitthvað,“ bætti forsetinn við.