Hrun markaða víðs vegar um heiminn sýnir skýrt að enginn mun hagnast á viðskiptastríði.
Þetta sagði Steffen Hebestreit, talsmaður þýsku ríkisstjórnarinnar, á blaðamannafundi í Berlín í morgun.
Að hans sögn þarf nú að bregðast við af skynsemi og með skýrum hætti til að koma í veg fyrir að viðskiptastríð stigmagnist.
Einnig þurfi Evrópusambandið að standa vörð um hagsmuni þjóða sinna og koma þeim skýrt á framfæri.
Tollar á innfluttar vörur frá ríkjum innan Evrópusambandsins til Bandaríkjanna nema 20% og taka gildi á miðvikudag.
Evrópusambandið hefur lýst því yfir að mótvægisaðgerðir verði gerðar vegna tollanna.
Að því er AFP-fréttaveitan greinir frá lækkaði DAX-vísitalan í Þýskalandi um 10% á einum tímapunkti í morgun.
Hebestreit sagði að umtalsverð verðmæti væru að glatast á fjármálamörkuðum og að efnahagsleg áhrif væru þegar farin að koma fram.