Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði á fundi með Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, í dag að Gasa væri „ótrúleg og mikilvæg fasteign“ sem Ísraelsmenn hefðu aldrei átt að „gefa“ Palestínumönnum.
Netanjahú er í heimsókn í Hvíta húsinu, þar sem hann reynir m.a. að semja við Trump um að leggja vægari tolla á Ísrael.
En stríðið á Gasa barst einnig á góma í samræðum þjóðarleiðtoganna en Trump hefur lýst því yfir að Bandaríkin ættu að taka yfir Gasaströndina og byggja þar rivíeru, en að Palestínumenn myndu flytja annað. Netanjahú hefur lýst áhuga sínum á þessum áformum og segjast þeir deila framtíðarsýn um herkvína.
„Ég held að [Gasa] sé ótrúleg og mikilvæg fasteign,“ sagði forsetinn í dag, en eins og frægt er var hann einn frægasti fasteignamógúll Bandaríkjanna á 9. áratugnum.
„Ég held það sé eitthvað sem við tækjum þátt í. Það að friðarafl eins og Bandaríkin stjórnaði og ætti Gasaströndina væri góður hlutur.“
Seinna á fundinum hélt hann því fram að Ísraelsmenn hefðu gefið Palestínumönnum landið í skiptum fyrir frið.
„Þau tóku eign við sjávarsíðuna og gáfu hana til fólksins í skiptum fyrir frið,“ hélt Trump fram. „Hvernig gekk það? Ekki vel.“