Donald Trump Bandaríkjaforseti segist ætla að semja við aðrar þjóðir um að ná „sanngjörnum samningum“ í alþjóðaviðskiptum. Hann hyggst samt ekki setja tollana á pásu.
Ísraelsmenn hafa boðist til þess að „eyða“ viðskiptahalla milli Ísraels og Bandaríkjanna í von um að losna undan tollum Bandaríkjaforsetans.
„Við ætlum að ná sanngjörnum samningum og góðum samningum við alla,“ sagði Trump í dag á sameiginlegum blaðamannafundi með Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels.
„Og ef við gerum það ekki, viljum við ekkert með þá hafa. Þeir fá ekki leyfi til að taka þátt í Bandaríkjunum,“ hélt forsetinn áfram. Hann sagði einnig að „nánast hvert einasta land“ hefði óskað um að semja um betri díl.
Netanjahú er í heimsókn í Hvíta húsinu, þar sem hann reynir m.a. að semja við Trump um að leggja vægari tolla á Ísrael.
Ísrael er á meðal 60 þjóða sem standa frammi fyrir hærri tollum. 17% tollur er settur á ísraelskar vörur í Bandaríkjunum frá og með miðvikudeginum 9. apríl.
Tollarnir hafa sent hlutabréfamarkaði um víða veröld í uppnám. Á Íslandi hefur markaðsvirði skráðra hlutabréfa á Íslandi lækkað um 381 ma. kr. síðan á fimmtudaginn, að sögn Kauphallarinnar.
Netanjahú lofaði því að hann myndi „eyða“ öllum viðskiptahalla og losa um öll viðskiptahöft milli Bandaríkjanna og Ísraels. Sagði hann önnur lönd mega taka Ísrael til fyrirmyndar. Hann bætti við að Ísrael myndi losa sig við tollana „fljótlega“.
Tollar Ísraels gagnvart Bandaríkjunum yrðu því fjarlægðir. En Trump kom sér undan því að svara hvort tollar á Ísrael yrðu fjarlægðir á móti, og vísaði hann til þess að Bandaríkin hefðu veitt Ísrael „milljarða og milljarða af Bandaríkjadölum“.
Netanjahú er fyrsti þjóðarleiðtoginn sem óskar persónulega eftir slíku við Trump frá því að allsherjartollavegferð forsetans hófst. Þetta er í annað sinn sem leiðtogarnir funda í Hvíta húsinu síðan Trump tók við embætti. Síðast heimsótti Netanjahú Hvíta húsið í febrúar og ræddu þeir þá meðal annars stríðið á Gasa.
Evrópusambandið hafði stungið upp á núll-fyrir-núll tollum á innflutta bíla. En Trump sagði það ekki duga.
Auk þess hvatti forsetinn ESB til að kaupa orku frá Bandaríkjunum og hélt því fram að Bandaríkin hefðu meiri orku en allir aðrir.