Fjöldi hagfræðinga víða um heim hefur lýst áhyggjum af tollastríði Donalds Trump Bandaríkjaforseta, sem hefur hrundið af stað viðskiptastríði sem sérfræðingar segja að geti leitt til alþjóðlegrar efnahagskreppu.
Li Daokui, sem er einn áhrifamesti hagfræðingur Kína, segir í samtali við AFP að tollar Trumps miði aðallega að því að „þrýsta á önnur lönd“ til að fá ívilnanir.
„Það er erfitt að ímynda sér aðra efnahagsstefnu sem getur valdið fólki um allan heim, þar á meðal fólki í Bandaríkjunum sjálfum, tjóni á sama tíma. Þetta er einfaldlega „sýning“ á misheppnaðri efnahagsstefnu,“ segir Li.
„Bæði munu bandarísk stjórnvöld og bandarískt efnahagslíf verða fyrir gríðarlegu tjóni,“ segir Li enn fremur, en hann er prófessor í hagfræði við Tsinghua-háskóla og átti um tíma sæti í helsta pólitíska ráðgjafaráði Kína.
Hann bætir við að kínversk stjórnvöld séu að fullu undirbúin fyrir tolla. Hann segir að kínversk stjórnvöld hafi reiðbúnar gagnráðstafanir auk þess sem Kína hafi unnið að því að örva innlenda neyslu.
Þá segir hann að á meðan viðskiptastefna Trumps marki endalok forystu Bandaríkjanna á sviði alþjóðavæðingar þá gefi hún kínverskum stjórnvöldum tækifæri til að semja um fríverslunarsamninga við önnur lönd og gegna lykilhlutverki í því að koma á fót nýju kerfi sem myndi koma í stað Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.
Franski hagfræðingurinn Thomas Piketty, sem er höfundur metsölubókarinnar „Auðmagn á 21. öld“, segir að stefna Trump sé fyrst og fremst viðbrögð við mistökum frjálshyggjustefnu Ronalds Reagan, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, á níunda áratugnum.
„Repúblikanar gera sér grein fyrir því að efnahagsleg frjálshyggja og hnattvæðing hafa ekki gagnast millistéttinni eins og þeir sögðu að þær myndu gera,“ segir Piketty í samtali við AFP.
„Svo nú gera þeir heiminn að blóraböggli,“ bætir hann við.
„En það mun ekki virka. Kokteillinn frá Trump mun einfaldlega skapa meiri verðbólgu og meiri ójöfnuð.“
Hann segir enn fremur að Evrópa verði að svara þessum aðgerðum með því að skilgreina sínar eigin forgangsröðun og búa sig undir alþjóðlega kreppu sem sé á leiðinni. Það geri Evrópa með umfangsmikilli fjárfestingaráætlun í orku- og samgönguinnviðum, menntun, rannsóknum og heilbrigðisþjónustu.
Bandaríkjamaðurinn Paul Krugman, sem er Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, segir að Bandaríkin séu í grundvallaratriðum ríki sem lagði grunninn að nútímaviðskiptum sem hafi leitt til lægri tolla undanfarna áratugi.
„Donald Trump brenndi það allt til grunna,“ skrifaði Krugman á Substack-bloggsíðu sína áður en 10 prósenta grunntollar forsetans á innflutning tóku gildi á laugardaginn.
„Trump er í raun ekki að reyna að ná efnahagslegum markmiðum. Þetta ætti allt að líta á sem yfirburðasýningu, ætlaða til að valda undrun og ótta og fá fólk til að skríða,“ segir hann.
Krugman sakar bandarísk stjórnvöld um „illgjarna heimsku“ á tíma þegar „örlög heimshagkerfisins eru í húfi“.
„Hvernig getur nokkur, hvort sem um er að ræða viðskiptalífið eða erlend stjórnvöld, treyst einhverju sem kemur frá stjórn sem hegðar sér svona?“