Alríkisdómari fyrirskipaði Hvíta húsinu í dag að veita blaðamönnum AP-fréttastofunnar aftur aðgang að viðburðum Donalds Trumps Bandaríkjaforseta en þeim hefur verið meinaður aðgangur að viðburðum forsetans frá 11. febrúar fyrir að hafa talað um Mexíkóflóa í stað Ameríkuflóa.
Trump gaf út forsetatilskipun þegar hann tók við embætti 20. janúar síðastliðinn að breyta nafni Mexíkóflóa í Ameríkuflóa. AP hefur ekki viljað tala um Ameríkuflóa í fréttum sínum heldur haldið sig við fyrra nafn.
Trump var ekki ánægður með þá ákvörðun og meinaði blaðamönnum miðilsins aðgang að viðburðum.
Trevor N. McFadden alríkisdómari úrskurðaði að stjórnvöld gætu ekki hefnt sín á AP fyrir að fylgja ekki forsetatilskipun hans. Stangast það á við fyrsta viðauka bandarísku stjórnarskrárinnar að útiloka ákveðna blaðamenn frá viðburðum vegna sjónarmiða þeirra.
Trump hefur talað um AP sem hóp „öfga vinstri-brjálæðinga“ og að þeim „verði haldið úti þar til þeir samþykkja að þetta sé Ameríkuflói“.