Þriggja ára stúlka í Coahuila í norðurhluta Mexíkó er látin af völdum fuglainflúensu H5N1.
Þetta staðfestu heilbrigðisyfirvöld í Mexíkó í tilkynningu í dag en um er að ræða fyrsta mannslátið í landinu af völdum veirunnar.
Eliud Aguirre heilbrigðisráðherra sagði engin önnur tilvik um smit af völdum veirunnar í landinu svo vitað sé um.
Karlmaður á þrítugsaldri lést í Kambódíu af völdum veirunnar í janúar og barn í febrúar. Þriggja ára drengur lést þá í mars af völdum veirunnar í Suðaustur-Asíuríkinu.
Fyrr í þessum mánuði varð mannslát í Indlandi og tilkynnt var um smit hjá starfsmanni kjúklingabús í Bretlandi í janúar.
Nokkur smit hafa greinst í Bandaríkjunum það sem af er þessu ári, eitt þeirra leiddi til dauðsfalls í Louisiana-ríki. Hinn smitaði var á sjötugsaldri og hafði komist í tæri við sýkta fugla.