Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði í gær að tillaga Evrópusambandsins um undanþágur frá tollum á iðnaðarvörur, þar á meðal bíla, væri ekki nóg til að vega upp á móti viðskiptahallanum sem væri á milli ríkjanna.
„Evrópusambandið hefur komið mjög, mjög illa fram við okkur, þeir taka ekki við bílunum okkar, eins og Japan gerir í þeim skilningi, þeir taka ekki við landbúnaðarvörum okkar. Þeir taka í raun ekki við neinu,“ sagði Trump við blaðamenn í Hvíta húsinu.
Í liðinni viku tilkynnti Trump um 20 prósenta toll á evrópskar vörur sem er hluti af umfangsmiklum tollaðgerðum sem eiga að taka gildi á morgun.
Trump lét ummælin falla í gær eftir að Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sagði fyrr um daginn að sambandið færi fram á tvíhliða undanþágur frá tollum á bifreiðar og aðrar iðnaðarvörur.
„Við höfum lagt til núll tolla á iðnaðarvörur [...] Evrópa er alltaf reiðubúin til að gera góðan samning“ við Bandaríkin, sagði von der Leyen á blaðamannafundi í Brussel.
Hún sagði enn fremur að Evrópa væri tilbúin að svara með gagnráðstöfunum og verja hagsmuni ESB gagnvart aðgerðum Trumps.
Trump sagði jafnframt í gær að viðskiptahalli ESB myndi „hverfa hratt“ ef Evrópuríki færu að fjárfesta í bandarískri orku.