21 árs gömul kona var stungin til bana í Herning á Jótlandi í Danmörku í gærkvöld.
Lögreglan í Mið- og Vestur-Jótlandi greinir frá þessu í fréttatilkynningu en þetta kemur fram í frétt á TV2.
Í tilkynningu lögreglunnar kemur fram að konan hafi verið stunginn um níuleytið í gærkvöld. Vegfarendur tilkynntu um atvikið og hófu að veita skyndihjálp en ekki reyndist unnt að bjarga lífi konunnar og var hún úrskurðuð látin á sjúkrahúsi.
Gerandinn hefur ekki fundist og hefur lögreglan óskað eftir aðstoð við að finna hann. Að sögn lögreglu sást hinn grunaði hlaupa af vettvangi. Honum er lýst á aldrinum 20 til 25 ára, um 180 sentímetrar á hæð, grannur og með miðausturlenskt útlit.