Evrópusambandið hefur tilkynnt álögur sem verða fyrstu mótvægisaðgerðirnar gegn tollunum sem Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur lagt á.
Álögur ESB beinast fyrst og fremst að þeim ríkjum þar sem repúblikanar eru í meirihluta og leggjast m.a. á sojabaunir, ávexti, hnetur, mótorhjól og snyrtivörur.
„Þessum mótvægisaðgerðum verður hægt að aflétta hvenær sem er svo lengi sem Bandaríkin eru reiðubúin að ræða við okkur um sanngjarna niðurstöðu,“ segir í yfirlýsingu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
Aðgerðirnar eru svar Evrópusambandsins við tollum Bandaríkjanna á stál og ál sem lagðir voru á í síðasta mánuði.
ESB mun byrja að innheimta tollana þann 15. apríl, að því er fram kemur í yfirlýsingunni.
„Evrópusambandið telur bandarísku tollana óréttlætanlega og skaðavaldandi, þeir valda tjóni á hagkerfum Evrópu og Bandaríkjanna, auk alþjóðahagkerfisins,“ segir í yfirlýsingu sambandsins sem ítrekar jafnframt vilja sinn til að komast að sanngjarnri og sameiginlegri niðurstöðu sem myndi hagnast báðum aðilum.
Trump tilkynnti undir lok síðasta mánaðar 25% toll á evrópska bíla. Fyrir viku kynnti hann svo 20% toll á allan innfluttan varning frá ríkjum Evrópusambandsins.
Talsmaður Evrópusambandsins segir ESB eiga eftir að bregðast við þeim tollum. Þær aðgerðir verði mögulega kynntar í næstu viku.
Álögurnar sem kynntar voru í dag samanstanda af tvenns konar tollum. Annars vegar tollum sem voru í gildi á fyrra kjörtímabili Trumps sem forseta, en búið var að afnema. ESB byrjar að innheimta þá tolla í næstu viku.
Hins vegar verða innleiddir tollar á vörur sem ekki hafa verið í gildi áður. Þeir tollar munu ekki taka gildi fyrr en í næsta mánuði. Sumir verða ekki innheimtir fyrr en í desember.