Rússar áhyggjufullir vegna tolla Trumps

Rússar segja Trump lítilsvirða alþjóðaviðskipti.
Rússar segja Trump lítilsvirða alþjóðaviðskipti. AFP

Rúss­nesk stjórn­völd saka Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seta um að lít­ilsvirða alþjóðaviðskipti með um­fangs­mik­illi álagn­ingu tolla.

Segja þeir stjórn Trumps brjóta gegn grund­vall­ar­regl­um Alþjóðaviðskipta­stofn­un­ar­inn­ar (WTO) og að toll­arn­ir „sýni að Washingt­on telji sig ekki leng­ur bundna venj­um alþjóðaviðskipta­laga“.

Rúss­nesk stjórn­völd hafa sýnt var­kárni þegar kem­ur að gagn­rýni í garð Banda­ríkj­anna frá því að Trump sneri aft­ur í Hvíta húsið í janú­ar í von um að njóta stuðnings hans við gerð hag­stæðs friðarsamn­ings í inn­rás­ar­stríðinu í Úkraínu.

Stjórn­völd í Kreml hafa þó síðustu daga látið í ljós áhyggj­ur vegna lækk­andi olíu­verðs í kjöl­far þess að tolla­stríðið hófst.

Staðan al­var­legri þegar stærri hag­kerfi eru und­ir

„Áföll fyr­ir heims­hag­kerfið, sem ógna hag­vexti og stuðla að sam­drætti í neyslu, hafa nei­kvæð áhrif á fjölda alþjóðlegra ferla,“ seg­ir María Sakaróva, talskona rúss­neska ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins, við blaðamenn.

„Staðan verður öllu al­var­legri þegar við erum að ræða um tvö af stærstu hag­kerf­um heims.“

El­vira Nabiull­ina, seðlabanka­stjóri Rúss­lands, seg­ir tolla­stríðið „veru­lega áhættu“ fyr­ir hag­kerfi heims og að mikl­ar breyt­ing­ar í alþjóðaviðskipt­um væru í vænd­um.

„Það er enn mjög erfitt að meta hvaða áhrif toll­arn­ir munu hafa á alþjóðahag­kerfið og Rúss­land.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert