Rússnesk stjórnvöld saka Donald Trump Bandaríkjaforseta um að lítilsvirða alþjóðaviðskipti með umfangsmikilli álagningu tolla.
Segja þeir stjórn Trumps brjóta gegn grundvallarreglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) og að tollarnir „sýni að Washington telji sig ekki lengur bundna venjum alþjóðaviðskiptalaga“.
Rússnesk stjórnvöld hafa sýnt varkárni þegar kemur að gagnrýni í garð Bandaríkjanna frá því að Trump sneri aftur í Hvíta húsið í janúar í von um að njóta stuðnings hans við gerð hagstæðs friðarsamnings í innrásarstríðinu í Úkraínu.
Stjórnvöld í Kreml hafa þó síðustu daga látið í ljós áhyggjur vegna lækkandi olíuverðs í kjölfar þess að tollastríðið hófst.
„Áföll fyrir heimshagkerfið, sem ógna hagvexti og stuðla að samdrætti í neyslu, hafa neikvæð áhrif á fjölda alþjóðlegra ferla,“ segir María Sakaróva, talskona rússneska utanríkisráðuneytisins, við blaðamenn.
„Staðan verður öllu alvarlegri þegar við erum að ræða um tvö af stærstu hagkerfum heims.“
Elvira Nabiullina, seðlabankastjóri Rússlands, segir tollastríðið „verulega áhættu“ fyrir hagkerfi heims og að miklar breytingar í alþjóðaviðskiptum væru í vændum.
„Það er enn mjög erfitt að meta hvaða áhrif tollarnir munu hafa á alþjóðahagkerfið og Rússland.“