Móðir ísraelsks hermanns sem haldið er í gíslingu á Gasa þráir að sonur hennar snúi aftur, af ótta við að síendurteknar sprengjuárásir Ísraela á landsvæðið setji lífi hans í enn meiri hættu.
„Börnin okkar eru í hættu,“ segir Herut Nimrodi í samtali við AFP-fréttaveituna en sonur hennar, Tamir, var aðeins 18 ára þegar hann var fluttur til Gasa 7. október 2023.
„Við vitum ekki mikið, en eitt sem er víst er að hernaðarþrýstingur á Gasa stofnar gíslunum í hættu,“ segir hún.
Af 251 gíslum sem handteknir voru í árás Hamas á Ísrael þann 7. október 2023 eru 58 enn í haldi á Gasa, þar af 34 sem Ísraelsher segir að séu látnir.
Vopnahlé sem stóð frá 19. janúar til 17. mars leiddi til þess að 33 ísraelskir gíslar voru sendir til baka, þar af átta í líkkistum, í skiptum fyrir um 1.800 palestínska fanga sem voru í haldi Ísraela.
En 18. mars, eftir margra vikna ósætti við Hamas um næstu skref í vopnahléinu, hófu Ísraelar aftur umfangsmiklar hernaðaraðgerðir á Gasa-svæðinu, sem hófust með miklum sprengjuárásum.
Tamir, sem er tvítugur að aldri, var tekinn í gíslingu þann 7. október 2023 ásamt tveimur öðrum hermönnum sem voru drepnir tveimur mánuðum síðar á Gasa. Talið er að Tamir sé einn af 24 gíslunum sem talið er að séu á lífi.
Forsætisráðherra Ísraels, Benjamín Netanjahú, og ríkisstjórn hans halda því fram að aukinn hernaðarþrýstingur sé eina leiðin til að þvinga Hamas til að afhenda gíslana, dauða eða lifandi.
„Í eitt og hálft ár hefur það ekki virkað. Það sem hefur virkað eru samningaviðræður og þrýstingur frá Donald Trump Bandaríkjaforseta,“ segir Nimrodi og sakar stjórnvöld í Ísrael um að forgangsraða ekki endurkomu gíslanna.