Nú er ljóst að 184 manns létust þegar þak hrundi á skemmtistað í Santo Domingo, höfuðborg Dóminíska lýðveldisins, á þriðjudaginn.
Leit að eftirlifendum í rústunum var hætt í gærkvöld en nú snúast aðgerðir um að leita að líkamsleifum þeirra sem létust og vonir um að finna fleiri á lífi eru ekki raunhæfar að mati yfirvalda.
Um 300 björgunarsveitarmenn ásamt leitarhundum og slökkviliðsmönnum hafa síðustu daga unnið hörðum höndum við björgunarstarf en talið er að á bilinu 500 til 1.000 manns hafi verið á skemmtistaðnum þegar þakið hrundi. Fjölmargir særðust og voru fluttir á nærliggjandi sjúkrahús.
Eigendur Jet Set-næturklúbbsins segjast vinna með yfirvöldum við að rannsaka hvað olli því að þakið hrundi.