Tveir íslenskir háhyrningar, Wikie og Keijo, auk tólf höfrunga eru fastir í sædýragarði í frönsku borginni Antibes. Búið er að loka sædýragarðinum og til stóð að flytja hvalina til Tenerife, í dýragarðinn Loro Parque, en spænsk stjórnvöld hafa hafnað beiðni um innflutning dýranna.
Wikie er 23 ára gamalt kvendýr og hefur allt sitt líf verið í sædýragarðinum í Antibes. Foreldrar hennar, Sharkane og Kim II, voru bæði veidd sem kálfar við Íslandsstrendur á níunda áratug síðustu aldar. Keijo er 11 ára karldýr, móðir hans er Wikie.
Sædýragarðurinn Marineland park í Antibes hefur verið starfræktur í yfir 50 ár en lokaði fyrr á þessu ári, meðal annars vegna minni aðsóknar en einnig vegna þess að ný dýraverndunarlög hafa verið samþykkt í Frakklandi.
Lögin munu taka gildi í desember á næsta ári og þá verða sýningar með háhyrningum, höfrungum og fleiri dýrum ólöglegar. Sædýragarðurinn hefur að undanförnu leitað að nýju heimili fyrir dýrin.
Tveir spænskir garðar komu til greina að mati eigenda Marineland, áðurnefndur garður á Tenerife og svo annar í Madríd. Spænsk stjórnvöld telja hins vegar laugar í báðum görðum vera bæði of grunnar og litlar fyrir dýrin.
Þannig hefur fyrirhugaður flutningur Wikie og Keijo verið stöðvaður.
Stjórnendur Marineland vilja finna nýtt heimili fyrir hvalina þar sem garðurinn er lokaður og samningur við þjálfara dýranna rennur út um miðjan apríl. Þá þyrfti að ráðast í framkvæmdir á laugunum sem dýrin eru í til að geta haldið þeim þar.
Frönsk stjórnvöld hafa gefið stjórnendum sædýragarðsins þau svör að dýrin verði að vera áfram í Marineland þar til önnur lausn finnst.
Nokkrir tugir háhyrninga voru veiddir við strendur Íslands á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Þeir voru seldir til dýragarða víðs vegar um heim, meðal annars til Bandaríkjanna, Hollands, Japan og Frakklands. Sædýrasafnið í Hafnarfirði var milliliður við kaupendur.
Þá voru dýrin veidd ung, þegar þau voru aðeins nokkurra ára gömul.