Ursula von der Leyen, framkvæmdastjóri Evrópusambandsins, hefur tilkynnt að fyrstu fyrirhugðum mótvægisaðgerðum vegna tolla Donalds Trumps Bandaríkjaforseta verði frestað um 90 daga.
Ákvörðunin er kynnt eftir að Trump gaf út að 90 daga hlé yrði gert á nýjum tollum á innfluttar vörur til Bandaríkjanna, sem tóku gildi í fyrrinótt, og að tíu prósenta grunnlína yrði á tollum á tímabilinu.
Sagði Trump að yfir 75 lönd hefðu beðið um samningaviðræður við Bandaríkin um tollana og því hefði hann ákveðið að gera hlé í bili.
Evrópusambandið (ESB) tilkynnti í gær um mótvægisaðgerðirnar sem eiga fyrst og fremst að gilda þar sem repúblikanar eru í meirihluta og leggjast m.a. á sojabaunir, ávexti, hnetur, mótorhjól og snyrtivörur.
Eru aðgerðirnar svar ESB við tollum Bandaríkjanna á stál og ál sem lagðir voru á í síðasta mánuði, en til stóð að byrja að innheimta þá þann 15. apríl.
Trump tilkynnti undir lok síðasta mánaðar 25 prósenta toll á evrópska bíla, en í síðustu viku kynnti hann svo 20 prósenta toll á allan innfluttan varning frá ríkjum ESB.
Ekki hafði enn verið brugðist við þeim tollum af hálfu ESB, en talsmaður ESB hafði áður sagt að frekari aðgerðir yrðu mögulega kynntar í næstu viku.
Þær aðgerðir munu væntanlega einnig bíða um sinn, en Von der Layen sagði í dag að ef samningaviðræður við Bandaríkin myndu ekki skila fullnægjandi árangri, þá myndu mótvægisaðgerðirnar taka gildi.