Hlutabréf á mörkuðum í Asíu hafa hækkað í dag eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti í gær um 90 daga hlé á tollum á öll lönd nema Kína.
Eftir miklar lækkanir síðustu daga í kjölfar ákvörðunar Trumps um tollahækkanir hafa markaðir í Asíu brugðist vel við frestun Trumps á ofurtollunum.
Japanska Nikkei-vísitalan hækkaði um 9,1 prósent, í Taívan fóru hlutabréfin upp um 9,3 prósent, fjögurra prósent hækkun varð í Hong Kong og í Suður-Kóreu og Singapúr hækkuðu hlutabréfin um tæp 5 prósent.
Þá urðu sögulegar hækkanir á hlutabréfamarkaði vestanhafs eftir að Trump tilkynnti um tollahlé gagnvart þeim ríkjum sem sýnt hafa Bandaríkjamönnum samningsvilja.