Meta vann náið með kínverska kommúnistaflokknum við að byggja og þróa sérhönnuð ritskoðunartól sem þögguðu niður í gagnrýnendum flokksins.
Þetta sagði Sarah Wynn-Williams, fyrrverandi starfsmaður Facebook, sem sendi frá sér bók í mars um tíma sinn hjá bandaríska tæknirisanum Meta. Bar hún vitni fyrir þingnefnd í gær á Capitol Hill í Washington.
Hægt er að horfa á myndskeið frá AFP í spilaranum að ofan þar sem Winn-Williams er fyrir þingnefndinni.
Meðal þess sem kom fram í máli Winn-Williams er að Facebook hafi eytt reikningi andófsmanns sem var í kommúnistaflokknum, Kínverja sem búsettur er í Bandaríkjunum. Þá hafi forsvarsmenn samfélagsmiðlarisans logið að þinginu þegar það óskaði upplýsinga um atvikið.
„Þannig komst fyrirtækið í mjúkinn hjá Peking og gat byggt upp 18 milljarða dollara starfsemi í landinu,“ sagði hún. Hún sagði einnig að Mark Zuckerberg, forstjóri Meta, væri persónulega viðriðinn uppbygginguna í Kína.
Winn-Williams sagði Meta jafnan tala um að ekki megi gera neitt sem geti látið Kína vinna. Ekki þegar kemur að gervigreind eða öðrum tækniframförum.
„Á sama tíma er það fyrirtæki sem hefur hjálpað Kína mest í að ná forskoti þegar kemur að tæknilegum framförum, Meta.“