Dimitrí Ovsiannikov, fyrrum borgarstjóri í borginni Sevastopol, var dæmdur í rúmlega þriggja ára fangelsi í Bretlandi fyrr í dag vegna brota á þeim viðskiptaþvingunum sem hann er undir vegna stríðsins í Úkraínu.
Ovsiannikov var borgarstjóri í Sevastopol á árunum 2017-2019. Sevastapol er stærsta borgin á Krímskaga. Krímskagi hefur verið á valdi Rússa síðan árið 2014 eftir innrás þeirra á Krímskaga.
Ovsiannikov er sá fyrsti sem hlýtur dóm fyrir að brjóta gegn þeim viðskiptaþvingunum sem Bretar settu á Rússland árið 2019. Hann hlaut fjörutíu mánaða fangelsisdóm en um helmingur hans er skilorðsbundinn.
Brotin sem Ovsiannikov framdi fólust í því að stofna bankareikning í Bretlandi og fá þangað millifærslu upp á áttatíu þúsund pund frá eiginkonu sinni. Bróðir hans millifærði einnig inn á hann svo hann gæti fest kaup á bifreið.
Bróðir hans var sakfelldur fyrir sinn þátt í málinu en eiginkona hans þurfti ekki að svara til saka.