Framkvæmdastjóri hjá Siemens á Spáni og fjölskylda hans létust í þyrluslysinu sem varð í New York í gær.
Agustin Escobar, kona hans og þrjú börn, voru um borð í þyrlunni, ásamt flugmanni og létust þau öll. Fjögur voru úrskurðuð látin á vettvangi, en tvö á spítala skömmu eftir komuna þangað.
Talsmaður Siemens hefur staðfest það við AFP-fréttaveituna að Escobar og fjölskylda hans hafi látist í slysinu.
Þyrlan hrapaði í Hudson-ána en svo virðist sem þyrluspaðarnir hafi losnað frá þyrlunni. Sjónarvottur sagði í samtali við AFP að spaðarnir hefðu splundrast í loftinu. Í kjölfarið hafi þyrlan svo hrapað beint ofan í ána.
Veðurskilyrði voru frekar slæm í New York í gær, það var þoka og töluverður vindur og hefur fréttastöðin NBC4 greint frá því að þyrla fyrirtækisins hafi ekki getað tekið á loft vegna veðurs.
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur birt færslu á Truth Social þar sem hann segir slysið „skelfilegt “ og biður guð að blessa fjölskyldu og vini fórnarlambanna.
Rannsókn er hafin á slysinu, en þyrlan var af gerðinni Bell 206.