Kína hefur tilkynnt að ákveðið hafi verið að leggja 125% tolla á bandarískar vörur.
Ákvörðunin er svar við yfirlýsingu Donalds Trumps, forseta Bandaríkjanna, sem í fyrradag tilkynnti 90 daga hlé á tollum en ákvað í gær að hækka tolla á Kína úr 125% upp í 145.
Í yfirlýsingu frá tollanefnd ríkisráðsins í Peking segir að tollahækkun Bandaríkjanna brjóti alvarlega gegn alþjóðlegum viðskiptareglum, grundvallarlögmálum hagfræðinnar og almennri skynsemi.
Fjármálaráðuneyti Kína hefur birt yfirlýsinguna og segir þar að tollarnir muni taka gildi á morgun.
AFP-fréttaveitan greinir frá því að Kína hyggist leggja fram kæru til Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) vegna tollahækkana Trumps.
Auk þess kemur fram að Kína muni hunsa frekari tollahækkanir af hálfu Bandaríkjanna.