Spænska fjölskyldan sem lést í þyrluslysinu sem varð í New York í gær var að halda upp á 40 ára afmæli móðurinnar.
Framkvæmdastjóri Siemens á Spáni, Agustin Escobar, kona hans og þrjú börn, hið elsta ellefu ára, voru um borð í þyrlunni, ásamt flugmanni og létust þau öll.
Arafa Cherif, svissneskur ferðamaður, sagði blaðamanni AFP að hún hafi orðið vör við mikil læti sem hún hélt í fyrstu að gæti verið sprengja.
„Ég var hrædd og það voru aðrir í kringum mig líka. Svo sá ég fjölda lögreglu- og slökkviliðsmanna,“ sagði hún.
Myndskeið af slysinu sýnir spaðana losna af þyrlunni rétt áður en sundruð vélin hrapaði ofan í ána.
„Svo virðist sem spaðarnir hafi skollið á skrokki þyrlunnar og skorið stélið af, sem hefur skapað ómögulegar aðstæður,“ sagði Jim Brauchle, lögfræðingur og fyrrverandi herflugmaður.
„Megin orsök þess að slíkt gerist er vélræn bilun eða óhófleg hreyfing.“
Kafarar frá lögreglu og slökkviliði kepptust við að draga alla farþegana úr ánni en fjögur þeirra voru úrskurðuð látin á vettvangi. Tvö voru flutt á sjúkrahús en læknum tókst ekki að bjarga þeim og voru þau úrskurðuð látin skömmu eftir komuna þangað.