Voru að halda upp á afmæli móðurinnar

AFP/Leonardo Munoz

Spænska fjöl­skyld­an sem lést í þyrlu­slys­inu sem varð í New York í gær var að halda upp á 40 ára af­mæli móður­inn­ar.

Fram­kvæmda­stjóri Siem­ens á Spáni, Ag­ust­in Escob­ar, kona hans og þrjú börn, hið elsta ell­efu ára, voru um borð í þyrlunni, ásamt flug­manni og lét­ust þau öll.

„Vél­ræn bil­un eða óhóf­leg hreyf­ing“

Arafa Cherif, sviss­nesk­ur ferðamaður, sagði blaðamanni AFP að hún hafi orðið vör við mik­il læti sem hún hélt í fyrstu að gæti verið sprengja.

„Ég var hrædd og það voru aðrir í kring­um mig líka. Svo sá ég fjölda lög­reglu- og slökkviliðsmanna,“ sagði hún.

Mynd­skeið af slys­inu sýn­ir spaðana losna af þyrlunni rétt áður en sundruð vél­in hrapaði ofan í ána.

„Svo virðist sem spaðarn­ir hafi skollið á skrokki þyrlunn­ar og skorið stélið af, sem hef­ur skapað ómögu­leg­ar aðstæður,“ sagði Jim Brauchle, lög­fræðing­ur og fyrr­ver­andi herflugmaður.

„Meg­in or­sök þess að slíkt ger­ist er vél­ræn bil­un eða óhóf­leg hreyf­ing.“

Kafar­ar frá lög­reglu og slökkviliði keppt­ust við að draga alla farþeg­ana úr ánni en fjög­ur þeirra voru úr­sk­urðuð lát­in á vett­vangi. Tvö voru flutt á sjúkra­hús en lækn­um tókst ekki að bjarga þeim og voru þau úr­sk­urðuð lát­in skömmu eft­ir kom­una þangað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert