Susannah Meyers, yfirmaður bandarísku Pituffik-herstöðvarinnar á Grænlandi, hefur verið rekin úr starfi.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu bandaríska hersins en þar segir meðal annars að ástæðan fyrir brottrekstrinum sé skortur á getu hennar til að stjórna herstöðinni.
„Það er ætlast til að herforingjar fylgi ströngustu hegðunarstöðlum, sérstaklega þegar kemur að því að vera hlutlausir í skyldustörfum sínum,“ segir í yfirlýsingunni.
J.D. Vance, varaforseti Bandaríkjanna, heimsótti Pituffik-herstöðina í síðasta mánuði þar sem hann notaði tækifærið og sakaði Dani um að hafa vanrækt skyldur sínar í að vernda Grænland.
Trump hefur haldið því fram að Bandaríkin þurfi yfirráð yfir Grænlandi vegna þjóðaröryggis og alþjóðlegs öryggis og hefur neitað að útiloka beitingu valds til að tryggja það.
Meyers, sem hefur gegnt stöðu yfirmanns herstöðvarinnar frá því í júlí í fyrra, gagnrýndi opinberlega stefnu Trumps í þessum málum og heimsókn J.D. Vance til Grænlands í tölvupósti.
Á vefsíðunni Military.com er greint frá því að Meyers hafi sent tölvupóst til allra starfsmanna herstöðvarinnar í lok síðasta mánaðar þar sem hún hvatti til samheldni meðal þeirra eftir heimsókn varaforsetans til Grænlands.
Í færslu á samfélagsmiðlinum X segir Sean Pernell, talsmaður varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna, að allar tilraunir til að grafa undan stefnu Trumps séu ekki liðnar.
Meyers hefur nú verið látin taka poka sinn og tekur Shawn Lee ofursti við starfi hennar.