Ísraelsher hefur lagt undir sig svæði sem skilur að borgirnar Rafah og Khan Yunis á Gasasvæðinu. Herinn hyggst nú útvíkka og auka hernaðaraðgerðir sínar og hefur fyrirskipað tugþúsundum íbúa Khan Yunis að yfirgefa borgina.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Israel Katz, varnarmálaráðherra Ísraels.
„Nú er tíminn til að rísa upp, fjarlægja Hamas og frelsa alla ísraelsku gíslana,“ segir Katz í yfirlýsingunni.
„Þetta er eina leiðin til að binda enda á stríðið.“
Katz greindi einnig frá því að herinn væri að taka yfir nokkur svæði í norðurhluta Gasa.
Yfirlýsing hans kom á sama tíma og embættismaður Hamas-samtakanna sagði í samtali við AFP-fréttaveituna að samtökin ættu von á framförum í viðræðum um vopnahlé.
Aðeins örfáum klukkustundum síðar birtu Hamas-samtökin myndskeið sem sýnir Edan Alexander, 21 árs gísl í haldi samtakanna, þar sem hann er á lífi og gagnrýnir Benjamín Netanjahú og ísraelsku ríkisstjórnina.