Óbeinar viðræður um kjarnorkuáætlun hafnar

Utanríkisráðherra Írans, Abbas Araghchi, og utanríkisráðherra Ómans, Badr Albusaidi, í …
Utanríkisráðherra Írans, Abbas Araghchi, og utanríkisráðherra Ómans, Badr Albusaidi, í Óman í dag. AFP

Banda­rík­in og Íran hófu óbein­ar viðræður í dag í Óman um kjarn­orku­áætlun Írans. Viðræðurn­ar munu halda áfram í næstu viku. 

Greint hef­ur verið frá að mark­mið Banda­ríkj­anna sé að gera sam­komu­lag sem kæmi í veg fyr­ir að Íran réði yfir kjarn­orku­vopn­um.

Hervaldi beitt ef viðræður drag­ast á lang­inn

Benja­mín Net­anja­hú, for­sæt­is­ráðherra Ísra­els, sagði á þriðju­dag að hann og Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seti væru sam­mála um að Íran ætti ekki að fá að ráða yfir kjarn­orku­vopn­um.

Ráðherr­ann tók jafn­framt fram að ef viðræðurn­ar, sem hóf­ust í dag, myndu drag­ast á lang­inn væri óhjá­kvæmi­legt að hervaldi yrði beitt.

Á mánu­dag hafði Trump sagt að það yrði „frá­bært“ ef sam­komu­lag myndi nást við Íran en tók einnig fram að landið yrði í vand­ræðum næðist sam­komu­lag ekki.

Töluðu sam­an í nokkr­ar mín­út­ur

Breska rík­is­út­varpið grein­ir frá því að ut­an­rík­is­ráðherra Írans, Abbas Arag­hchi, hafi tjáð rík­is­miðlum í land­inu að Íran vilji „sann­gjarn­an samn­ing“, en landið hef­ur von­ast eft­ir samn­ingi um að tak­marka kjarn­orku­áætlun sína, frem­ur en að leggja hana niður. 

Arag­hchi og er­ind­reki Don­alds Trumps, Steve Wit­koff, hitt­ust í dag í höfuðborg Óman, Muscat, þar sem þeir töluðu sam­an aug­liti til aug­lit­is í nokkr­ar mín­út­ur eft­ir viðræðurn­ar. Þær stóðu yfir í um tvo og hálf­an tíma og fóru fram með milli­göngu ut­an­rík­is­ráðherra Ómans, Badr Al­busaidi.

Í yf­ir­lýs­ingu frá ut­an­rík­is­ráðuneyti Írans seg­ir að viðræðurn­ar muni halda áfram í næstu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert