Bandaríkin og Íran hófu óbeinar viðræður í dag í Óman um kjarnorkuáætlun Írans. Viðræðurnar munu halda áfram í næstu viku.
Greint hefur verið frá að markmið Bandaríkjanna sé að gera samkomulag sem kæmi í veg fyrir að Íran réði yfir kjarnorkuvopnum.
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, sagði á þriðjudag að hann og Donald Trump Bandaríkjaforseti væru sammála um að Íran ætti ekki að fá að ráða yfir kjarnorkuvopnum.
Ráðherrann tók jafnframt fram að ef viðræðurnar, sem hófust í dag, myndu dragast á langinn væri óhjákvæmilegt að hervaldi yrði beitt.
Á mánudag hafði Trump sagt að það yrði „frábært“ ef samkomulag myndi nást við Íran en tók einnig fram að landið yrði í vandræðum næðist samkomulag ekki.
Breska ríkisútvarpið greinir frá því að utanríkisráðherra Írans, Abbas Araghchi, hafi tjáð ríkismiðlum í landinu að Íran vilji „sanngjarnan samning“, en landið hefur vonast eftir samningi um að takmarka kjarnorkuáætlun sína, fremur en að leggja hana niður.
Araghchi og erindreki Donalds Trumps, Steve Witkoff, hittust í dag í höfuðborg Óman, Muscat, þar sem þeir töluðu saman augliti til auglitis í nokkrar mínútur eftir viðræðurnar. Þær stóðu yfir í um tvo og hálfan tíma og fóru fram með milligöngu utanríkisráðherra Ómans, Badr Albusaidi.
Í yfirlýsingu frá utanríkisráðuneyti Írans segir að viðræðurnar muni halda áfram í næstu viku.