Slökkviliðsmenn í Gautaborg í Svíþjóð voru kallaðir til vegna páfagauks sem sat fastur í tré í bænum Kortedala.
Þegar slökkviliðsmennirnir gerðu tilraun til að bjarga páfagauknum brást hann ókvæða við og öskraði á þá: „fuck you“.
Á endanum þurfti eigandi páfagauksins að lokka hann niður með sígarettupakka en fuglinn hafði þá setið á greininni í um sex klukkustundir.
„Þetta er í rauninni eitthvað sem lífgar upp á hversdagsleikann,“ segir Denny Mausch, slökkviliðsmaður, í viðtali við sænska blaðið GP, en slökkviliðsmennirnir voru í öðru erindi í Kortedala þegar þeim var gert viðvart um páfagauk sem var í vandræðum. Þar sat hann fastur í háu tré og þorði ekki að hreyfa sig eða fljúga í burtu.
„Það er í rauninni ekki hluti af verkefni okkar að ná í dýr en ef við getum hjálpað þá gerum við það,“ segir Mausch.
Hann segir að páfagaukurinn hafi vissulega verið orðljótur en heillandi og meinlaus og greinilega svolítið reiður út í eiganda sinn.