Embættismenn vestra reyndu í dag að flýta fyrir því að jarðneskar leifar fjölskyldunnar spænsku, sem beið bana í voveiflegu þyrluslysi í New York í gær, fengju að fara til Spánar.
Fjölskyldumeðlimur er kominn til New York-borgar í von um að fá að flytja ástvini sína heim.
Agustín Escobar og Mercé Camprubí Montal voru ásamt börnum sínum þremur í útsýnisflugi yfir Manhattan í tilefni af fertugsafmæli móðurinnar. Elsta barnið var aðeins 11 ára gamalt.
Escobar var háttsettur stjórnandi innan alþjóðlega stórfyrirtækisins Siemens og fyrrum forstjóri þess á Spáni. Montal var einnig þekkt nafn á Spáni, stjórnandi hjá Siemens og hluti af þekktri fjölskyldu þar sem meðal annars tveir meðlimir hennar hafa verið forsetar spænska íþróttarisans FC Barcelona.
Kafarar frá lögreglu og slökkviliði unnu við að koma öllum farþegum upp úr ánni en fjögur voru úrskurðuð látin á vettvangi. Tvö voru flutt á sjúkrahús þar sem þau voru síðar úrskurðuð látin.
Leitað var í ánni í dag af braki úr þyrlunni, meðal annars þyrluspöðunum sem höfðu ekki enn komið í leitirnar eftir að hafa losnað frá þyrlunni í loftinu og steypst í ána.
Flugstjórnarklefanum var lift upp úr ánni með krana í nótt.
Steven Fulop, borgarstjóri í New Jersey, lét hafa eftir sér að unnið væri með kenningar á borð við árekstur þyrlunnar við dróna eða fugla eða vélarbilun.
Slysið varpar ljósi á flugöryggi vestra en fleiri slys hafa orðið á tiltölulega skömmum tíma. Skemmst er að minnast þess þegar 67 manns fórust þegar herþyrla og farþegaþota rákust saman í Washington í janúar.
Um 30 þyrluslys hafa orðið í New York frá árinu 1980.
Fréttaveitan On Demand News hefur tekið saman ítarlega fréttaskýringu á YouTube þar sem farið er yfir það mikilvægasta í málinu og rætt við sjónarvotta. On Demand News er afsprengi breska fjölmiðlafyrirtækisins ITN, Independent Television News.
Myndskeið On Demand News má sjá að ofan.