Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur undanþegið snjallsíma og tölvur frá tollum sem hann setti á í síðustu viku. Undanþágurnar ná einnig til 145% tolla á innflutning frá Kína.
Tolla- og landamæraeftirlit Bandaríkjanna birti tilkynningu í nótt þar sem útskýrt var að vörurnar yrðu undanskildar frá 10% tolli Trumps á flest lönd og mun hærri innflutningsskatti á kínverskar vörur.
Kínverjar tilkynntu í gær að þeir hygðust leggja 125% tolla á bandarískar vörur eftir að hafði Trump hækkaði tollana á Kína í 145%.
Áhyggjur voru uppi meðal bandarískra tæknifyrirtækja um að verð á raftækjum myndi hækka gífurlega vegna tollanna enda eru mörg þeirra framleidd í Kína, að sögn BBC.
Margt benti til þess að verð á iPhone og öðrum raftækjum í Bandaríkjunum myndi þrefaldast ef kostnaður við tollana hefði verið velt yfir á neytendur. Undanþágurnar ná einnig til annarra rafeindatækja og íhluta, þar á meðal hálfleiðara, sólarrafhlöðna og minniskorta.
Bandaríkin eru stór markaður fyrir iPhone, en Apple stóð fyrir meira en helmingi af snjallsímasölu sinni í fyrra, samkvæmt Counterpoint Research.
Kína sleppur þó ekki alveg með skrekkinn þar sem 20%-tollar sem Trump lagði á landið fyrr í ár, þá vegna við hlutverks Kína í fentanýl-innflutning til Bandaríkjanna, fá að standa, að því er New York Times greinir frá.