„Það skiptir sköpum að heimurinn sé ekki þögull eða áhugalaus eftir eldflaugaárásina í Súmí," segir Volodimír Selenski Úkraínuforseti í færslu á samfélagsmiðlinum X en 32 eru látnir og tugir manna eru særðir eftir árás Rússa á úkraínsku borgina í morgun.
Selenskí fordæmir árásina og segir að heimsbyggðin verði að bregðast harkalega við.
„Það verður að vera þrýstingu á Rússa að binda enda á stríðið og tryggja öryggi fólks,“ segir Selenskí og bætir við að Rússar muni halda áfram að draga stríðið á langinn án mikils þrýstings.
Hann segir að þetta sé í annað sinn sem Pútin Rússlandsforseti hunsi tillögu Bandaríkjanna um fullt og skilyrðislaust vopnahlé.
„Því miður eru Rússar sannfærðir um að þeir geti haldið áfram að drepa refsilaust. Aðgerðir eru nauðsynlegar til að breyta þessu ástandi,“ segir Selenskí.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti segir að árás Rússa á borgina Súmí sýni að Rússar einir kjósi að halda stríðinu áfram.
„Þetta sýnir skýlausa vanvirðingu Rússa fyrir mannslífum, alþjóðalögum og viðleitni Donald Trumps Bandaríkjaforseta um að binda enda á stríðið,“ segir Macron.