Barn lést vegna árásar Ísraelsmanna á spítala á Gasaströndinni í morgun, að sögn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Ísraelsher heldur því fram að Hamas-liðar hafi haft starfstöðvar á spítalanum.
Ísraelsher gerði í dag árás á spítala á Gasaströndinni og sagðist hafa hæft þar stjórnstöðvar Hamas-samtakanna. Frá því að stríðið braust út hafa Palestínumenn í auknu mæli leitað á spítala að skjóli frá loftárásum Ísraelsmanna.
Enginn lést í sjálfri árásinni á Al-Ahli spítalann en hún leiddi til þess að skurðaðgerðaálman og tæki til súrefnisframleiðslu eyðilögðust, að sögn almannavarna á Gasaströndinni. Tugir sjúklinga neyddust margir til að flýja spítalann.
Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstöðumaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, skrifar á X að barn hafi látið lífið vegna truflunar á læknisþjónustu.
„Bráðamóttakan, rannsóknarstofan, röntgenvélar fyrir bráðamóttökuna og apótekið voru eyðilögð,“ segir Ghebreyesus.
„Spítalinn var neyddur til að færa 50 sjúklinga á aðra spítala. Ekki var hægt að færa 40 sjúklinga sem voru í lífshættu.“
Hann bendir á að spítalar séu verndaðir samkvæmt alþjóðalögum. „Árásum á heilsu verður að linna.“
Ísraelsher hefur lagt aukið púður í árásir sínar á Gasaströndinni síðustu vikur.
Herinn hefur lagt undir sig svæði sem skilur að borgirnar Rafah og Khan Yunis á Gasasvæðinu.
Herinn hyggst nú útvíkka hernaðaraðgerðir sínar og fyrirskipaði í gær tugþúsundum íbúa Khan Yunis að yfirgefa borgina.