Lögregla rannsakar íkveikju á heimili Josh Shapiro, sem er ríkisstjóri Pennsylvaníu.
Shapiro, demókrati sem var margorðaður sem hugsanlegt varaforsetaefni Kamölu Harris í forsetakosningunum 2024, var í húsinu með fjölskyldu sinni þegar eldur braust út í nótt.
Vel gekk að slökkva eldinn, sem olli þó miklu tjóni á húsnæðinu að sögn viðbragðsaðila en fjölskyldan býr í Harrisburg.
Shapiro skrifar á X að fjölskyldan hafi vaknað kl. 2 í nótt við lögregluna að berja á dyrnar. Allir komust út heilir á húfi.
Shapiro er 51 árs og þótti líklegastur til að vera varaforsetaefni Harris í misheppnaðri forsetakosningabaráttu demókrata, en Tim Walz, starfsbróðir Shapiro í Minnesota, var á endanum varaformannsefni demókrata.
Shapiro þykir nú líklegur til þess að vera forsetaefni flokksins í kosningum árið 2028, að því er Fox News greinir frá. Hann hefur verið ríkisstjóri frá 2022 en sigraði þá naumlega fjölmiðlastjörnuna Mehmet Oz (Dr. Oz), sem hafði notið stuðnings Trumps.
Lögreglan biðlar nú til almennings um hjálp og býður allt að tíu þúsundir dala (1,3 m.kr.) til þess sem aðstoðar við að góma brennuvarginn.