Ástæða fyrir drápi mæðgna ráðgáta

Líklega verður aldrei ljóst hvað manni á þrítugsaldri gekk til …
Líklega verður aldrei ljóst hvað manni á þrítugsaldri gekk til þegar hann skaut mæðgurnar Anne Grimstad, 51 árs, og Elinu Jeanette, 17 ára, til bana á heimili þeirra í Lindesnes í mars ofanverðan. Þá vitneskju tekur hann með sér í gröfina þar sem hann stytti sér aldur á bílastæði um tuttugu kílómetra frá vettvangi að ódæðinu loknu. Ljósmynd/Úr einkasafni

Lög­regl­unni í Ag­der-fylki í Nor­egi er það hul­in ráðgáta hvaða ástæður bjuggu að baki vo­veif­legu drápi mæðgn­anna Anne Grimstad og sautján ára gam­all­ar dótt­ur henn­ar, El­inu Jea­nette, en mæðgurn­ar fund­ust skotn­ar til bana á heim­ili sínu í Vig­e­land í Lindes­nes þar í fylk­inu að morgni mánu­dags­ins 31. mars.

„Eins og málið horf­ir við okk­ur nú verðum við að búa okk­ur und­ir það að fá aldrei botn­inn í það hver ástæða þess­ara drápa var,“ seg­ir Tove Haug­land, ákæru­valds­full­trúi lög­regl­unn­ar í Ag­der, í sam­tali við norska rík­is­út­varpið NRK.

Seg­ir hann lög­regl­una ekki munu velta sér frek­ar upp úr því hvað manni á þrítugs­aldri gekk til með því að skjóta þær mæðgur til bana í mars­lok og sé það meðal ann­ars af til­lits­semi við aðstand­end­ur. Sjálf­ur verður ódæðismaður­inn, maður á þrítugs­aldri frá Aust­ur-Ag­der, hvorki knú­inn skýr­inga né reikn­ings­skila gjörða sinna þar sem hann fannst lát­inn á bíla­stæði í um tutt­ugu kíló­metra fjar­lægð frá vett­vangi og hafði stytt sér ald­ur með sama skot­vopni og varð mæðgun­um að ald­ur­tila.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka