Stjórnendur bandaríska háskólans Harvard höfnuðu í dag víðtækum kröfum sem Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sett til að sporna gegn gyðingahatri á háskólasvæðinu.
Með þessu hættir stjórn skólans á að fá ekki lengur fjármögnun frá alríkinu en á síðasta ári nam fjárstuðningur alríkisins til skólans 686 milljónum dala eða tæpum 88 milljörðum íslenskra króna.
Þann 3. apríl fengu stjórnendur Harvard tölvupóst um breyttar kröfur Trumps hvað snertir stjórnun, ráðningar og inntökuferli við skólann.
Kallaði Trump-stjórnin eftir því að miðað yrði við „hæfnimiðaða“ inntöku- og ráðningastefnu auk þess sem að framkvæma ætti úttekt á viðhorfum nemenda, kennara og stjórnenda til fjölbreytileika.
Þá vill Trump-stjórnin einnig banna nemendum og kennurum að bera andlitsgrímur auk þess sem þrýst er á stjórnendur skólans að hætta að viðurkenna og fjármagna „nemendahópa eða klúbba sem hvetja til glæpsamlegrar starfsemi eða ólöglegs ofbeldis“.
Fjölmörg mótmæli voru á háskólasvæðum víðs vegar um Bandaríkin á síðasta ári þar sem nemendur mótmæltu stríði Ísraels á Gasa. Mótmælin leiddu oft til átaka þar sem lögreglan þurfti að skerast í leikinn.
Trump og aðrir repúblikanar hafa sakað mótmælendur um að styðja við hryðjuverkasamtökin Hamas.
Alan Garber, rektor Harvard, hét því til nemenda og kennara skólans að skólinn myndi ekki „semja um sjálfstæði sitt eða stjórnarskrárbundin réttindi“.
Sagði hann að þó svo að sumar af þeim aðgerðum sem Trump-stjórnin leggi til beinist að því að sporna gegn gyðingahatri innan skólans séu þær flestar til þess fallnar að hafa afskipti af stjórnun skólans.
„Engin ríkisstjórn – óháð því hver er við völd – ætti að geta ákveðið hvað einkareknir háskólar kenna, hvern þeir taka inn og ráða til starfa eða hvaða rannsóknar eru stundaðar við skólann,“ skrifaði Gaber í tölvupóstinum til nemenda og kennara. Bætti hann við að skólinn hafi ráðist í víðtækar umbætur til að takast á við gyðingahatur innan skólans.