Donald Trump Bandaríkjaforseti kennir forvera sínum Joe Biden um það hvers vegna stríð geisar nú í Úkraínu. Þetta gerir hann á samfélagsmiðlinum Truth Social þar sem hann segir Biden og Volodimír Selenskí Úkraínuforseta bera ábyrgð á þeim stríðshörmungum sem eiga sér nú stað í Úkraínu.
„Stríðið á milli Rússlands og Úkraínu er stríðið hans Bidens, ekki mitt.“
„Ég hafði ekkert að gera með þetta stríð: En ég er að vinna staðfastlega að því að stöðva dauða og eyðileggingu [í Úkraínu],“ segir Trump.
Þá segir hann að ef ekki hefði verið fyrir svindl í forsetakosningunum árið 2020 hefði verið hægt að koma í veg fyrir stríð á fleiri en eina vegu. Hins vegar hafi Biden og Selenskí staðið sig afar illa í viðleitni sinni til að koma í veg fyrir stríð.
„En það er í fortíðinni. Núna þurfum við að stöðva það [stríðið] og það hratt. Þetta er dapurlegt,“ segir Trump.