„Nú koma margir inn í umboðið hjá mér og segjast undrast alla þessa sportbíla í Noregi,“ segir Olav Medhus í samtali við norska ríkisútvarpið NRK, handhafi umboðs þar í landi fyrir bifreiðamerkin Ferrari, McLaren, Lamborghini og Bentley.
„Það sem er hérna núna er þó bara það sem selst á tveimur vikum,“ bætir hann við.
Medhus selur að meðaltali eina sportbifreið hvern virkan dag með verðmiða á bilinu fimm til sex milljónir norskra króna, jafnvirði 63 til 76 milljóna íslenskra króna. Það gera um 300 ofursportbíla á ári – og það er bara frá umboðinu hans.
Gjáin milli vellauðugra Norðmanna annars vegar og hefðbundinna launaþræla hins vegar breikkar nú ört hjá bænda- og fiskveiðaþjóðinni sem á nokkrum áratugum varð ríkust í heimi eftir að hafa uppgötvað auðugar lindir olíu og gass undir botni Norðursjávarins.
Af meðfæddri sparsemi sinni og naumhyggju gerðu Norðmenn sér olíusjóð sem nú er metinn á 18.420 milljarða norskra króna, jafnvirði 234 billjóna íslenskra króna, á meðan nágrannar þeirra í Bretlandi, sem áttu drjúgan hluta lindanna, lögðu ekki eitt pund til hliðar, en nýttu olíuauð sinn til að lækka skatta auðstéttarinnar þeim megin Norðursjávarins.
Á meðan blómstraði takmarkalaus velmegun í Noregi, landi sem þó trúir á „Janteloven“ svokölluðu, þverskorið og ferkantað regluverk upp úr skáldsögu dansk-norska rithöfundarins Aksel Sandemose, sem banna landsmönnum að þykjast vera betri en aðrir og banna í töluvert einfölduðu máli að skara fram úr. Í Noregi má enginn vera bestur, bara jafn góður.
Þrátt fyrir framangreint sýnir rannsókn, sem bandaríska félagsvísindatímaritið American Sociological Review hefur nú gert heyrumkunna, að gjáin milli auðstéttar og sauðsvarts pupulsins í Noregi er nú einna breiðust í Noregi af öllum ríkjum Evrópu og skjóta Norðmenn þar með Bretum, Þjóðverjum, Lúxemborgarbúum og átta að auki af auðugustu löndum álfunnar ref fyrir rass í ójöfnuði.
Ójöfnuð þennan hefur norski félagsfræðingurinn Maren Toft, dósent við Félagsvísindastofnun Háskólans í Ósló og að auki „sérfræðingur í ríkum Norðmönnum“, eins og NRK titlar hana, rannsakað í þaula í starfi sínu og skýrir með vísun til Gini-stuðulsins svokallaða sem ber nafn ítalska félags- og tölfræðingsins Corrado Gini.
Á Gini-stuðlinum er gildið 0 þegar allir þegnar ríkis eiga nákvæmlega jafn mikið, en 1 þegar allur auður þjóðarinnar er í höndum einnar fjölskyldu. Því lægra sem gildið verður, þeim mun nær jafnri eign er þjóðin. Hækkandi gildi á Gini-stuðlinum táknar aukinn ójöfnuð.
Stuðullinn nær til dreifingar launatekna og fjármagnstekna meðal þjóðar. Þessar tvær summur mynda þar eins konar köku sem deilt er milli einstaklinga eða fjölskyldna og skilyrt að tölugildið sé núll eða hærra.
Bendir Toft fréttamönnum NRK á að í Noregi aukist ójöfnuðurinn hröðum skrefum og bakgrunnur foreldra verði sífellt ríkari þáttur í því hvaða Norðmenn eigi mest. „Þegar litið er til launamismunar erum við á pari við aðrar Evrópuþjóðir. Við þénum nokkuð jafnt, en eignaaukningin verður örust á toppnum,“ segir dósentinn og bendir að auki á athyglisverða tölfræði.
Samkvæmt skýrslunni „Sterkur vöxtur og aukin þétting fjármagnstekna“, sem út kom í Noregi í fyrra, jókst nettóeign auðugasta eins prósents Norðmanna frá því að vera 18,1 prósent árið 2012 til 22,3 prósenta árið 2022. Stórs hluta ástæðunnar er að leita í mikilli hækkun hlutabréfa- og fasteignaverðs sem skarað hefur mestum eldi að köku þeirra sem auðugastir voru fyrir.
Christoffer Olsen heitir maður sem hefur sitt lifibrauð af því að selja lúxussnekkjur hjá fyrirtækinu Aaby Marine, meðal annars af gerðinni Windy sem ekki er sú ódýrasta á markaðnum. Áður seldi hann BMW-bifreiðar þegar stóru seðlarnir lágu þar, en nú er öldin önnur en þegar Gaukur bjó á Stöng.
„Ég myndi segja að þeir sem hafa góð ráð nú um stundir hafi orðið meira áberandi á snekkjumarkaðnum síðustu fimm árin,“ segir Olsen við NRK og bætir því við að honum sýnist það orðið viðteknara hin síðustu ár í Noregi að hafa ríkidæmi sitt til sýnis.
„Fyrir tíu-fimmtán árum mátti sjá einn og einn Ferrari, Bentley og Lamborghini á norskum vegum. Nú gengurðu niður Bogstadveien [götu skammt frá miðbæ Óslóar] og sérð tíu á svipstundu. Svona er þetta orðið með bátana líka núna,“ segir snekkjusalinn og fyrrverandi BMW-salinn um breytt landslag í auðlegð Norðmanna.
NRK
Grein American Sociological Review
Lýðfræði fátæktar 1980 til 2020
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.