Réttarhöld eru hafin að nýju yfir fyrrverandi kvikmyndaframleiðandanum Harvey Weinstein. Um er að ræða endurupptöku á máli þar sem Weinstein var sakfelldur fyrir nauðgun og kynferðisbrot gegn tveimur konum.
Weinstein hafði verið dæmdur í 23 ára fangelsi í því máli árið 2020. Áfrýjunardómstóll vísaði hins vegar úrskurðinum frá í fyrra á þeim forsendum að dómsmeðferðin hafi ekki verið sanngjörn, þar sem konur sem Weinstein var ekki sakaður um að hafa brotið á fengu að bera vitni.
Réttarhöldin hófust í dag í New York og var Weinstein ekið inn í réttarsalinn í hjólastól, en hann hefur glímt við ýmsa heilsukvilla undanfarna mánuði.
Weinstein var sakfelldur árið 2020 fyrir að hafa beitt Mimi Haleyi, fyrrverandi aðstoðarkonu við framleiðslu, kynferðisofbeldi árið 2006 og nauðgað Jessica Mann, upprennandi leikkonu, árið 2013.
Báðar báru þær vitni í þeim réttarhöldunum árið 2020 og munu þær nú bera vitni aftur.
Í þessum réttarhöldum verður einnig tekin fyrir ný ákæra sem hefur verið lögð fram á hendur Weinstein, en honum er gefið að sök að hafa brotið kynferðislega á konu í hótelherbergi í New York árið 2006. Sú kona hefur ekki verið nafngreind.
Lindsey Goldbrum, lögmaður hinnar ónefndu konu, segir þá staðreynd að Haleyi og Mann muni bera vitni aftur vera vitnisburð um hugrekki þeirra og að saman muni konurnar þrjár tryggja að Weinstein verði látinn sæta ábyrgð fyrir glæpi sína gegn konum.
Búist er við að réttarhöldin geti tekið allt að sex vikur.
Þrátt fyrir að dómnum í þessu máli hafi verið vísað frá í fyrra situr Weinstein enn í fangelsi, þar sem hann afplánar 16 ára dóm eftir að hafa verið sakfelldur í aðskildu máli í Kaliforníu árið 2023, fyrir að hafa nauðgað leikkonu árið 2013.