Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur hótað að svipta Harvard-háskólann skattfrelsi sínu í kjölfar þess að skólinn hafnaði víðtækum kröfum forsetans.
Höfnun kröfugerðar Trumps hefur leitt til þess að skólinn mun ekki lengur fá fjármögnun frá alríkinu, sem átti að nema um 283 milljörðum króna.
Á samfélagsmiðli sínum sagði Trump að Harvard-háskólinn, sem er óhagnaðardrifin stofnun, ætti einnig mögulega að missa skattfrelsi sitt og vera skattlagður sem pólitísk stofnun ef skólinn héldi áfram að „ýta undir pólitíska, hugmyndafræðilega og hryðjuverkainnblásna og -styðjandi veiki“.
„Munið að skattfrelsi er háð því að það sé í almannaþágu,“ skrifaði Trump.
„Engin ríkisstjórn – óháð því hver er við völd – ætti að geta ákveðið hvað einkareknir háskólar kenna, hvern þeir taka inn og ráða til starfa eða hvaða rannsóknir eru stundaðar við skólann,“ skrifaði Alan Garber, rektor Harvard, í bréfi til nemenda og kennara þar sem hann tilkynnti að skólinn yrði ekki við kröfum Trumps.
Kröfur Trumps voru sagðar ætlaðar til að sporna gegn gyðingahatri á háskólasvæðinu.
Trump-stjórnin kallaði eftir því að miðað yrði við „hæfnimiðaða“ inntöku- og ráðningarstefnu, auk þess sem fram ætti að fara úttekt á viðhorfum nemenda, kennara og stjórnenda til fjölbreytileika.
Þá vill Trump-stjórnin einnig banna nemendum og kennurum að bera andlitsgrímur, auk þess sem þrýst er á stjórnendur skólans að hætta að viðurkenna og fjármagna „nemendahópa eða klúbba sem hvetja til glæpsamlegrar starfsemi eða ólöglegs ofbeldis“.
Vísað var til fjölmargra mótmæla sem urðu á háskólasvæðum víða um Bandaríkin þar sem nemendur mótmæltu aðgerðum Ísraels. Mótmælin leiddu oft til átaka þar sem lögreglan greip inn í.
Trump og aðrir repúblikanar hafa sakað mótmælendur um að styðja hryðjuverkasamtökin Hamas.
Columbia-háskólinn í New York varð við kröfum Trumps í síðasta mánuði, en mótmæli á háskólasvæði skólans vöktu mikla athygli í fyrra.
Háskólinn samþykkti eftirlit með Mið-Austurlandadeild sinni eftir hótanir um að missa 400 milljónir dala í alríkisfjármögnun, sem nemur um 51 milljarði króna.
AFP-fréttaveitan greinir einnig frá því að Trump-stjórnin hafi gripið til svipaðra aðgerða gegn lögfræðistofum, þar sem þrýst er á stofurnar að bjóða fram lögfræðivinnu að verðmæti hundruð milljóna dala til að styðja málefni sem Trump styður.