Trump hótar Harvard-háskóla

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP/Brendan Smialowski

Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seti hef­ur hótað að svipta Har­vard-há­skól­ann skatt­frelsi sínu í kjöl­far þess að skól­inn hafnaði víðtæk­um kröf­um for­set­ans.

Höfn­un kröfu­gerðar Trumps hef­ur leitt til þess að skól­inn mun ekki leng­ur fá fjár­mögn­un frá al­rík­inu, sem átti að nema um 283 millj­örðum króna.

Á sam­fé­lags­miðli sín­um sagði Trump að Har­vard-há­skól­inn, sem er óhagnaðardrif­in stofn­un, ætti einnig mögu­lega að missa skatt­frelsi sitt og vera skattlagður sem póli­tísk stofn­un ef skól­inn héldi áfram að „ýta und­ir póli­tíska, hug­mynda­fræðilega og hryðju­verkainn­blásna og -styðjandi veiki“.

„Munið að skatt­frelsi er háð því að það sé í al­mannaþágu,“ skrifaði Trump.

„Eng­in rík­is­stjórn – óháð því hver er við völd – ætti að geta ákveðið hvað einka­rekn­ir há­skól­ar kenna, hvern þeir taka inn og ráða til starfa eða hvaða rann­sókn­ir eru stundaðar við skól­ann,“ skrifaði Alan Garber, rektor Har­vard, í bréfi til nem­enda og kenn­ara þar sem hann til­kynnti að skól­inn yrði ekki við kröf­um Trumps.

Harvard-háskólinn í Massachusetts í Bandaríkjunum.
Har­vard-há­skól­inn í Massachusetts í Banda­ríkj­un­um. AFP

Ætlaðar til að sporna gegn gyðinga­h­atri 

Kröf­ur Trumps voru sagðar ætlaðar til að sporna gegn gyðinga­h­atri á há­skóla­svæðinu.

Trump-stjórn­in kallaði eft­ir því að miðað yrði við „hæfni­miðaða“ inn­töku- og ráðning­ar­stefnu, auk þess sem fram ætti að fara út­tekt á viðhorf­um nem­enda, kenn­ara og stjórn­enda til fjöl­breyti­leika.

Þá vill Trump-stjórn­in einnig banna nem­end­um og kenn­ur­um að bera and­lits­grím­ur, auk þess sem þrýst er á stjórn­end­ur skól­ans að hætta að viður­kenna og fjár­magna „nem­enda­hópa eða klúbba sem hvetja til glæp­sam­legr­ar starf­semi eða ólög­legs of­beld­is“.

Vísað var til fjöl­margra mót­mæla sem urðu á há­skóla­svæðum víða um Banda­rík­in þar sem nem­end­ur mót­mæltu aðgerðum Ísra­els. Mót­mæl­in leiddu oft til átaka þar sem lög­regl­an greip inn í.

Trump og aðrir re­públi­kan­ar hafa sakað mót­mæl­end­ur um að styðja hryðju­verka­sam­tök­in Ham­as.

Col­umb­ia-há­skóli varð við kröf­um

Col­umb­ia-há­skól­inn í New York varð við kröf­um Trumps í síðasta mánuði, en mót­mæli á há­skóla­svæði skól­ans vöktu mikla at­hygli í fyrra.

Há­skól­inn samþykkti eft­ir­lit með Mið-Aust­ur­landa­deild sinni eft­ir hót­an­ir um að missa 400 millj­ón­ir dala í al­rík­is­fjár­mögn­un, sem nem­ur um 51 millj­arði króna.

AFP-frétta­veit­an grein­ir einnig frá því að Trump-stjórn­in hafi gripið til svipaðra aðgerða gegn lög­fræðistof­um, þar sem þrýst er á stof­urn­ar að bjóða fram lög­fræðivinnu að verðmæti hundruð millj­óna dala til að styðja mál­efni sem Trump styður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert