Alríkisdómari í Washington hótaði í dag að kæra Trump-stjórnina fyrir að óhlýðnast fyrirmælum sínum um að stöðva flugvélar með flóttamenn frá Venesúela frá því að vera sendar til El Salvador.
New York Times greina frá en í 46 blaðsíðna úrskurði dómarans James E. Boasber kemur fram að hann myndi hefja málarekstur gegn ríkisstjórninni ef Hvíta húsið myndi ekki, innan við næsta mánuð, framfylgja úrskurðinum: að gefa tugum venesúelskra manna, sem sendir voru til El Salvador á grundvelli stríðslaga frá 18. öld, kost á að kæra brottvísun sína.
„Dómurinn kemst ekki að slíkum niðurstöðum léttlega eða í flýti; heldur hefur hann veitt verjandanum mikið rými til að rétta úr eða útskýra sínar gjörðir. Engin svör hafa verið fullnægjandi,“ skrifar Basberg, en hann er dómarinn sem reyndi að setja Trump-stjórninni stólinn fyrir dyrnar þegar upp komst um áformin.
Hinn 14. mars gaf Donald Trump út forsetatilskipun þar sem vísað var til lagasetningar frá 1798 með það fyrir stafni að vísa liðsmönnum venesúelska glæpagengisins Tren de Aragua (TdA) úr landi. Sagði Trump Venesúelamennina ógna Bandaríkjamönnum.
Lagagreinin (1798 Alien Enemies Act) kveður á um að þegar Bandaríkin eru í stríði eða að verjast innrás megi yfirvöld handsama og senda úr landi án málsmeðferðar alla borgara „óvinaþjóðarinnar“ sem hafa náð 14 ára aldir. Lögunum hafði aðeins verið beitt þrisvar áður í Bandaríkjasögunni, meðal annars í fyrri og seinni heimstyrjöldinni.
Hótun Boasbergs dómara kemur aðeins degi eftir að Paula Xinis, alríkisdómari í öðru máli er varðar téðar brottvísanir, tilkynnti að hún væri að hefja rannsókn á því hvort Hvíta húsið hefði brotið í bága við úrskurð hæstaréttar Bandaríkjanna.
Hún gefur Trump-stjórninni tvær vikur til að veita svör við því hvers vegna hinum 29 ára Kilmar Abrego Garcia var ranglega vísað úr landi.