Höfnuðu tillögu um vopnahlé á Gasa

Hamas-samtökin gátu ekki fallist á kröfur Ísraelsmanna.
Hamas-samtökin gátu ekki fallist á kröfur Ísraelsmanna. AFP/Omar Al-Qatta

Hryðju­verka­sam­tök­in Ham­as eru sögð hafa hafnað til­lögu Ísra­els um sex vikna vopna­hlé á Gasa­svæðinu. Gerð var krafa um að Ham­as myndi leggja niður vopn sín á tíma­bil­inu. 

Í um­fjöll­un BBC um málið kem­ur fram að hátt­sett­ur palestínsk­ur emb­ætt­ismaður sem er kunn­ug­ur viðræðunum segi að ekki hafi verið að finna nein­ar skuld­bind­ing­ar um að binda enda á stríðið í til­lög­un­um eða brott­flutn­ing ísra­elskra her­manna frá Gasa. 

Þetta eru þær kröf­ur sem Ham­as setja til að af­henda þá gísla sem eru enn á lífi aft­ur til Ísra­els­manna. Talið er að 59 gísl­ar séu enn í haldi Ham­as, þar af 24 á lífi. 

Íhuga breytta til­lögu

Sam­einuðu þjóðirn­ar hafa varað við því að ástandið á Gasa hafi ekki verið verra frá því að stríðið hófst í októ­ber 2023. Sex vik­ur eru liðnar síðan aðföng­um var hleypt inn á landsvæði Palestínu­manna. Sam­einuðu þjóðirn­ar telja að skort­ur sé á mat­væl­um á svæðinu. 

Benja­mín Net­anja­hú, for­sæt­is­ráðherra Ísra­els, seg­ir stöðvun flutn­ings aðfanga inn á svæðið vera hluta af því að þrýsta á Ham­as að sleppa gísl­um og semja um vopna­hlé á ný. 

BBC hef­ur heim­ild­ir fyr­ir því að stjórn­völd í Egyptalandi hafi lagt fram breytta til­lögu um vopna­hlé á Gasa sem Ham­as-sam­tök­in íhugi að samþykkja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert