Hryðjuverkasamtökin Hamas eru sögð hafa hafnað tillögu Ísraels um sex vikna vopnahlé á Gasasvæðinu. Gerð var krafa um að Hamas myndi leggja niður vopn sín á tímabilinu.
Í umfjöllun BBC um málið kemur fram að háttsettur palestínskur embættismaður sem er kunnugur viðræðunum segi að ekki hafi verið að finna neinar skuldbindingar um að binda enda á stríðið í tillögunum eða brottflutning ísraelskra hermanna frá Gasa.
Þetta eru þær kröfur sem Hamas setja til að afhenda þá gísla sem eru enn á lífi aftur til Ísraelsmanna. Talið er að 59 gíslar séu enn í haldi Hamas, þar af 24 á lífi.
Sameinuðu þjóðirnar hafa varað við því að ástandið á Gasa hafi ekki verið verra frá því að stríðið hófst í október 2023. Sex vikur eru liðnar síðan aðföngum var hleypt inn á landsvæði Palestínumanna. Sameinuðu þjóðirnar telja að skortur sé á matvælum á svæðinu.
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, segir stöðvun flutnings aðfanga inn á svæðið vera hluta af því að þrýsta á Hamas að sleppa gíslum og semja um vopnahlé á ný.
BBC hefur heimildir fyrir því að stjórnvöld í Egyptalandi hafi lagt fram breytta tillögu um vopnahlé á Gasa sem Hamas-samtökin íhugi að samþykkja.