Ríkisstjórn Donalds Trumps Bandaríkjaforseta hefur höfðað mál gegn Maine-ríki þar sem ríkið hefur ekki framfylgt forsetatilskipun um að banna þátttöku trans kvenna í kvennaflokki í íþróttum.
Pam Bondi, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, segir að ráðuneytið bregðist við þar sem það muni ekki sitja hjá „þegar konur verða fyrir mismunun í íþróttum“. Hún segir að tilskipunin sé til þess fallin að vernda öryggi ungra kvenna.
Janet Mills, ríkisstjóri Maine, er hins vegar ekki á sömu blaðsíðu og ráðherrann. Hún segir að tilskipunin hafi aldrei snúist um vernd stúlkna og sakar ríkisstjórnina um að „þvinga vilja sinn“ upp á ríki Bandaríkjanna.
Alríkisstjórnin og ríkisstjóri Maine hafa eldað grátt silfur um tíma.
Á blaðamannafundi bandarískra ríkisstjóra í febrúar tókust Trump og Mills á um bann trans kvenna í kvennaíþróttum.
Hótaði Trump að skera niður fjárveitingar til ríkisins færi Maine ekki eftir forsetatilskipun hans.
„Við sjáumst fyrir dómi,“ svaraði Mills forsetanum.