Lögregluembætti víðs vegar um Evrópu handtóku tíu, yfirheyrðu átján og lögðu hald á 31 milljón evra af ógreiddu skattfé á dögunum, þegar Europol réðst í umfangsmiklar aðgerðir gegn stórum hópi bílasmyglara.
Upphæðin nemur 4,5 milljörðum í íslenskum krónum. Aðgerðin nefndist Nimmersatt („matargat“ á þýsku) og teygði sig til 11 aðilaríkja ESB auk Bretlands, Rússlands, Írlands, Bandaríkjanna, Kanada og Ungverjalands.
Saksóknaraembætti Evrópu (EPPO) og saksóknaraembætti í Berlín og Vilníus leiddu rannsóknina með hjálp Europol en hún beindist að hópum sem smygluðu ónýtum bílum frá Bandaríkjunum, létu þá líta út fyrir að vera óskaddaða, og seldu síðan aftur.
Með þessu sviku þeir undan tollgjöldum og framkvæmdu stórfelld virðisaukaskattsvik, segir í yfirlýsingu Europol vegna málsins.
Europol segir að með þessu hafi smyglararnir stefnt neytendum í hættu, þar sem þeir hafi ómeðvitaðir keypt hættuleg farartæki á háu verði.
Bílarnir komu til Evrópu ýmist við hafnir í borgunum Antwerpen (Belgíu), Brimarhöfn (Þýskalandi), Klaipėda (Litháen) og Rotterdam (Hollandi). Síðan munu smyglararnir hafa framvísað fölsuðum vörureikningum til að lækka innflutningstollana verulega.
Gert var við þá í Litháen en síðan seldir sem nýir – þó aðeins lítillega gerðir upp – til viðskiptavina í Evrópusambandsríkjum.
Europol og EPPO frystu pantanir upp á 26,5 milljónir evra, auk þess voru bankareikningar frystir og lagt var hald á 116 bíla að virði 2,3 m. evra.