Steinar Wangen, sem norskir fjölmiðlar hafa skreytt viðurnefninu „engill dauðans“ vegna þeirrar starfsemi hans að bjóða aðstoð sína við sjálfsvíg þeirra sem eftir því leita, hefur nú verið framseldur til Noregs frá Svíþjóð, eins og mbl.is greindi í byrjun mars frá að til stæði í kjölfar handtöku Wangens á Nordby-hótelinu í Strömstad í Svíþjóð í nóvember.
Hefur hann nú verið úrskurðaður í gæsluvarðhald að kröfu norskra lögregluyfirvalda, en Wangen berst fyrir því að aðstoð við sjálfsvíg verði gerð lögleg í Noregi, „legalisering av aktiv dødshjelp“ kallast á norsku sú aðstoð við náungann sem Wangen er tilbúinn að leggja frelsi sitt í sölurnar fyrir.
Skýringin á því að hann situr ekki þegar í fangelsi eftir átta ára dóm Héraðsdóms Østfold í Noregi í júlí í fyrra fyrir starfsemina er að þeir Gaute Nilsen verjandi hans áfrýjuðu til lögmannsréttar og krafðist ákæruvaldið ekki gæsluvarðhalds fram að dómi áfrýjunardómstólsins.
Við yfirheyrslur hefur Wangen haldið því fram að hann hafi notað kodda til að kæfa „skjólstæðinga“ sína, tvær konur, aðra norska, hina sænska, en fyrir að ráða þá fyrri af dögum hlaut hann dóminn í fyrra og er nú formlega grunaður um að hafa verið valdur að dauða þeirrar síðari. Var Wangen handtekinn í Strömstad í kjölfar þess er fréttamenn norsku sjónvarpsstöðvarinnar TV2 egndu honum gildru með því að látast vera kona er sæktist eftir þjónustu hans.
Meðal gagna málsins eru samskipti Wangens og sænskrar konu á lýðnetinu þar sem Wangen tjáir viðmælanda sínum hvernig megi koma manneskju fyrir kattarnef þannig að á krufningarskýrslu líti andlátið út sem sjálfsvíg. Mælir hann þar með þeirri aðferð að gefa þeim, sem mæta skuli skapara sínum, fíkniefni og kæfa svo með kodda. Dánarorsökin verði þá skráð of stór skammtur fíkniefna.
Hafa norsku réttarmeinafræðingarnir Peer Kåre Lilleng og Ida Kathrine Gravensteen staðfest í skýrslu sinni um aðferðina að ekki verði áreiðanlegum krufningargögnum að dreifa í kjölfar slíkrar atburðarásar, örðugt gæti orðið að greina dánarorsökina sem kæfingu með kodda.
„Gefirðu stóran skammt fíkniefna og leggir svo kodda yfir andlitið greinast ekki sérstök verksummerki við krufninguna,“ segir Lilleng sem starfar við Gades-stofnunina í Berlín.
Í samtali um SMS-skeyti við fréttamann TV2 í kjölfar dómsins í fyrrasumar, en fréttamaðurinn kom þar fram sem kona er óskaði endaloka hérvistar sinnar, lýsti Wangen því að hann hefði notað koddann til að kæfa norsku konuna:
„Lögreglan komst ekki að þessu með koddann. Þess vegna var ég ákærður fyrir samverknað við sjálfsvíg. Hefði hún áttað sig á koddanum hefði verið um manndrápsmál að ræða,“ skrifaði Wangen í grandleysi sínu til fréttamannsins sem í kjölfarið lokkaði sjálfsvígsaðstoðarmanninn á hótelið í Strömstad þar sem sænskir lögreglumenn biðu hans í stað örvæntingarfullrar konu í leit að hinsta úrræðinu við þjáningum mannlífsins.
„Mörk samverknaðar við sjálfsvíg og manndráps markast venjulega af því hver framkvæmir lokaverknaðinn,“ segir Erling Johannes Husabø,prófessor í réttarfari við Háskólann í Bergen, þegar norska ríkisútvarpið NRK leitar eftir skýringum hans um þetta atriði sérstaklega, en Husabø ritaði á sínum tíma doktorsritgerðina Rett til sjølvvalt livsavslutning? eða Réttur til lífsloka að eigin ákvörðun? er vakti verðskuldaða athygli í fræðasamfélagi norskra lögfræðinga á sviði réttarfars, það er þeirrar greinar lögfræði er fjallar um rekstur mála fyrir dómi.
Segir prófessorinn innihald skýringar sinnar í grunninn að hafi hin látna enn verið á lífi þegar aðstoðarmaðurinn greip til koddans sé um manndráp að ræða. „Þar er þó skilyrði að honum [Wangen] hafi verið ljóst að hún var á lífi og hann þar með haft þann ásetning að kæfa hana,“ segir hann enn fremur.
Ásetningsverk felur í sér að þeim er það vinnur gangi til ætlunar að ráða fórnarlamb sitt af dögum, honum hafi verið ljóst að bani yrði sennileg afleiðing gjörða hans eða talið það hugsanlegt að fórnarlambið lifði af, en aðhafst engu að síður.
„Að sanna ásetning verður ef til vill ekki vandinn í tilviki á borð við þetta, þar sem það þjónar litlum tilgangi að kæfa lík með kodda,“ segir lagaprófessorinn að lokum auk þess sem Peter Johansen héraðssaksóknari, sem sótti málið gegn Wangen fyrir héraðsdómi í fyrra, bendir NRK á að refsirammi brotanna tveggja, samverknaðar við sjálfsvíg og manndráps, sé hinn sami í norskum rétti, átta til 21 ár.
Úrskurður um ákvörðun ásetnings – og fleiri viðfangsefni – bíður því héraðsdóms í næsta dómsmáli gegn Stein Wangen fyrir að leggja fram aðstoð sína við að koma þeim, er þess hafa farið á leit við hann, yfir móðuna miklu.