Vestræn vopnakerfi hafa reynst misvel í átökunum í Úkraínu. Á sama tíma og orrustuskriðdrekinn Leopard 2, sem gjarnan er talinn stolt þýska hersins á okkar tímum, hefur fengið svo gott sem falleinkunn á vígvellinum, hafa eldri vopnakerfi sem fyrst voru hönnuð á tímum kalda stríðsins reynst mun árangursríkari.
Eru þetta t.a.m. bandaríska orrustuþotan F-16, sem hefur sannað gildi sitt gegn árásardrónum, stýriflaugum og orrustuþotum Rússa, og þýski loftvarnardrekinn Gepard. Bæði þessi vopnakerfi urðu fyrst til á áttunda áratug síðustu aldar, en hafa síðan þá fengið reglulegar uppfærslur.
Frá síðari tímum kalda stríðsins og skömmu eftir fall múrsins fór áhersla Atlantshafsbandalagsins (NATO) að breytast þegar kemur að hönnun og framleiðslu á vopnakerfum. Í stað þess að reyna að jafna stöðuna á vígvellinum; einn vestrænn orrustuskriðdreki gegn einum sovéskum, var áhersla lögð á betri, hraðari og banvænni vopnakerfi. Og um leið flóknari. Nú þegar Evrópa hefur staðið frammi fyrir þriggja ára löngu allsherjarstríði í Úkraínu, umfangsmestu átökum frá lokum seinna stríðs, þar sem vestrænum vopnakerfum er daglega beitt gegn rússneskum, hafa gallar þeirra fyrrnefndu komið í ljós. Á sama tíma og rússneskir skriðdrekar eiga lítinn, ef nokkurn, möguleika á að granda vestrænum drekum eru NATO-tækin viðhaldsfrekari og flókinn búnaður þeirra, sem alla jafna veitir forskot á vígvellinum, líklegri til að bila. Og þetta skapar vandamál í Úkraínu.
Bryndrekasveitir Úkraínu hafa lofað brynvörn og getu þýska drekans Leopard 2 á vígvellinum. Flókinn og um leið nákvæmur vopnabúnaður hans tryggir Úkraínuher forskot í vopnuðum átökum. Dreki þessi getur auðveldlega grandað rússneskum skriðdrekum á afar löngu færi. Hið sama á við um brynvörn og hönnun almennt, mun betri tækni en sú sem kemur frá Rússlandi. Hins vegar hafa ódýrir árásardrónar sett strik í reikninginn sem og viðhald og rekstur þessara bryndreka. Úkraínuher hefur því gengið misvel að halda þeim úti vikum saman við vopnuð átök. Viðhaldsvinna er sögð flókin og bilanatíðni há. Þá er skortur á viðhaldsstöðvum nærri víglínunni.
Í ljósi þessa hefur Úkraínuher breytt hlutverki hans á vígvellinum. Í stað þess að Leopardinn sé sleggjan í sókn á vígvelli, eins og hann var hannaður til, er hann notaður sem stórskotaliðsfallbyssa sem hleypir af aðalbyssu sinni og hörfar svo í skjól.
Eldri vopnakerfi á borð við orrustuþotuna F-16 hafa hins vegar reynst mun betur í daglegum og síendurteknum átökum. Þotur þessar hafa hingað til komið frá Evrópuríkjum og hafa reynst vel við að granda stýriflaugum og árásardrónum Rússa. Undanfarna daga og vikur hafa þoturnar einnig fælt orrustuþotur og -þyrlur Rússa frá svæðum sem þeir áður töldu sig örugga til að stunda aðgerðir á.
Loftvarnardrekinn Gepard, sem fyrst var tekinn í notkun hjá þýska hernum árið 1976, hefur þó óvænt stimplað sig rækilega inn í nútímahernað Úkraínustríðsins. Tæki þetta var fyrst hannað til að granda flugvélum Sovétríkjanna og notar til þess tvær 35 mm fjölskotabyssur sem sleppt geta 1.100 skotum á mínútu. Hefur Gepard reynst afar banvænn gegn árásardrónum, stýriflaugum og sprengjuvörpum.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.